Enski boltinn

Um­mælin höfðu nei­kvæð á­hrif á Nunez sem hugsar hlý­lega til Spánar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Darwin Nunez hefur staðið í stríði við nettröll.
Darwin Nunez hefur staðið í stríði við nettröll. Marc Atkins/Getty Images

Darwin Nunez sagði neikvæð ummæli á samfélagsmiðlum hafa haft slæm áhrif á spilamennsku hans á tímabilinu. Hann vildi ekki gefa upp hvort hann væri á förum frá Liverpool en gaf það sterklega í skyn. 

Framherjinn átti erfitt uppdráttar undir lok tímabils og skoraði aðeins 1 mark í síðustu 13 leikjunum.

Í byrjun mánaðar eyddi hann öllu efni tengt Liverpool af samfélagsmiðlum sínum og margir töldu það merki um að Nunez væri á förum.

„Ég reyni núna að forðast að lesa þetta. Áður fyrr las ég mikið og það hafði slæm áhrif á mig. Hver sem segir að þetta hafi ekki áhrif á hann er að ljúga. Neikvæð ummæli um þig munu alltaf hafa áhrif. Nú skoða ég ekki neitt. Ekki einu sinni góðu hlutina“ sagði Nunez í viðtali við Canal 10. 

Skilur ekki ensku og hugsar fallega til Spánar

Nunez hefur oft orðið fyrir barðinu á aðdáendum andstæðinga Liverpool. Aðdáendur Nottingham Forest þóttu einstaklega svæsnir í hans garð en Nunez þaggaði niður í þeim með sigurmarki í uppbótartíma.

„Í þeim leik sungu Nottingham aðdáendurnir um mig allan tímann. Ég skildi ekki neitt, sem betur fer.“

Eins og áður segir efast stuðningsmenn Liverpool um að Nunez verði áfram hjá félaginu. Hann vildi ekkert gefa upp um það en gaf í skyn að enskukunnáttu hans, eða skortur á henni, væri að gera honum lífið leitt á Englandi. Hugurinn leitar til Spánar.

„Mér finnst landsliðið vera eins og mitt heimili. Þar hitti ég mitt fólk, get talað við alla og líður vel. Ég elska líka Almeria [eftir að hafa spilað þar] mjög mikið. Þar kynntist ég ástinni og eignaðist. Alltaf þegar ég fer til Almeria er ég líka hamingjusamur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×