Upp­gjörið, við­töl og myndir: Breiða­blik - Stjarnan 2-1 | Blikar minnkuðu for­skot Víkinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Patrik kom Blikum yfir.
Patrik kom Blikum yfir. Vísir/Diego

Breiðablik vann 2-1 sigur gegn Stjörnunni á Kópavogsvelli. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að Stjarnan hafi skapað urmul af færum í seinni hálfleik tókst gestunum ekki að jafna. 

Það tók Breiðablik ekki nema fimm mínútur að brjóta ísinn. Damir gerði vel í að vinna boltann í vörninni og heimamenn fóru í skyndisókn þar sem Viktor Karl Einarsson renndi boltanum inn fyrir vörn Stjörnunnar á Kristinn Steindórsson sem lét verja frá sér en Patrik Johannesen náði frákastinu og skoraði.

Damir Muminovic að gefa liðinu sínu háa fimmuVísir/Pawel Cieslikiewicz

Patrik Johannesen kom til Breiðabliks á síðasta tímabili en lék aðeins fimm leiki vegna meiðsla. Patrik hafði komið inn á í fimm leikjum í deildinni á þessu tímabili en var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og þakkaði traustið og skoraði sitt annað mark fyrir Breiðablik frá því hann kom í Kópavoginn.

Lokamínútur fyrri hálfleiks voru ansi fjörugur. Þvert gegn gangi leiksins komust Blikar í 2-0 þar sem mislukkuð klippa Patrik Johannesen endaði á því að Jason Daði Svanþórsson var fyrstur á boltann í teignum og skoraði.

Kristinn Jónsson var öflugur í vinstri bakverði BlikaVísir/Pawel Cieslikiewicz

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Damir Muminovic klaufalega tæklingu inn í teig og Örvar Eggertsson féll niður og fékk verðskuldaða vítaspyrnu. Emil Atlason skoraði úr vítaspyrnunni og minnkaði muninn í 2-1. Þannig var staðan í hálfleik.

Emil Atlason skoraði úr vítaspyrnuVísir/Pawel Cieslikiewicz

Þrátt fyrir að síðari hálfleikur hafi verið opinn í báða enda og bæði lið skapað sér færi til að bæta við mörkum fóru leikmenn illa að ráði sínu á síðasta þriðjungi.

Breiðablik - Stjarnan Besta deild karla Sumar 2024Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Það var gaman að sjá Oliver Sigurjónsson fá sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni þetta tímabilið en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Oliver kom inn á og spilaði tæplega sautján mínútur.

Breiðablik lifði af margar þungar sóknir Stjörnunnar og unnu 2-1 sigur. Með sigri tókst Blikum að minnka forskot Víkinga niður í þrjú stig.

Breiðablik er með 15 stig eftir 7 leikiVísir/Pawel Cieslikiewicz

Atvik leiksins

Patrik Johannesen kom til Breiðabliks á síðasta tímabili en lék aðeins fimm leiki vegna meiðsla. Patrik hafði komið inn á í fimm leikjum í deildinni á þessu tímabili en var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og þakkaði traustið og skoraði sitt annað mark fyrir Breiðablik frá því hann kom í Kópavoginn.

Stjörnur og skúrkar

Þrátt fyrir að það hafi ekki verið fallegt þá skoraði Patrik Johannesen fyrsta mark Blika og kom að öðru markinu þar sem misheppnuð klippa hjá honum endaði með að Jason Daði var fyrstur á boltann og skoraði.

Það var nóg að gera hjá Antoni Ara Einarssyni, markmanni Breiðabliks, sem stóð vaktina vel og varði allt sem kom á markið fyrir utan vítaspyrnu.

Varnarleikur Stjörnunnar leit ansi illa út í fyrstu tveimur mörkum Breiðabliks. Í fyrsta markinu varði Árni Snær Ólafsson, markmaður Stjörnunnar, vel en boltinn rúllaði nokkuð langa leið áður en hann fór á Patrik Johannesen sem skoraði auðvelt mark. Í öðru markinu átti Patrik mislukkaða klippu og Jason Daði Svanþórsson var fyrstur á boltann á meðan varnarmenn Stjörnunnar horfðu á hvorn annan.

Dómarinn

Ívar Orri Kristjánsson flautaði leik kvöldsins. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks dæmdi Ívar vítaspyrnu þar sem Damir tæklaði Örvar og Ívar komst að hárréttri niðurstöðu. Ívar var með fína stjórn á leiknum og negldi stóru ákvörðunina hárrétt og fær 7 í einkunn.

Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, stóð sig vel í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Stemning og umgjörð

Það hefur oft verið betri aðsókn á baráttuna um Arnarneshæðina. Alls mættu 1073 áhorfendur sem skemmtu sér vel og fengu fjörugan leik. Stuðningsmenn Breiðabliks fögnuðu vel og innilega þegar Ívar Orri Kristjánsson flautaði leikinn af enda sætur sigur og mikilvægur í toppbaráttunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira