Fótbolti

Fram­leiða heimildar­mynd um meiðsli Courtois

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tvisvar var talið öruggt að Courtois yrði frá út tímabilið. Tvisvar kom hann efasemdarmönnum á óvart.
Tvisvar var talið öruggt að Courtois yrði frá út tímabilið. Tvisvar kom hann efasemdarmönnum á óvart. Helios de la Rubia/Real Madrid via Getty Images

Meiðsli Thibauts Courtois og lygilega snögg endurkoma hans á knattspyrnuvöllinn verður viðfangsefni nýrrar heimildarmyndar Amazon Prime.

Amazon hefur verið að hasla sér völl í framleiðslu á íþróttaefni undanfarin ár. All or Nothing seríurnar, sem fylgdu eftir Man. City, Juventus og Arsenal, nutu mikilla vinsælda.

Courtois sleit krossband í vinstra hné á æfingu fyrir fyrsta leik núliðins tímabils, í ágúst 2023. Upphaflega var talið að hann yrði frá út tímabilið en hann jafnað sig merkilega fljótt og var snúinn aftur á æfingar í mars á þessu ári.

Þá varð hann hins vegar fyrir því óláni að rífa liðþófa í hægra hné. Þá þótti fullvíst að hann kæmi ekki við sögu á tímabilinu, en aftur jafnaði hann sig merkilega fljótt og tókst að spila leik gegn Cadiz þann 4. maí, leik sem tryggði Real Madrid endanlega spænska deildarmeistaratitilinn.

Courtois hefur öðlast orðspor fyrir að leggja gríðarlega mikla vinnu í sitt fag. Hvort sem það eru aukaæfingar í sumarfríum sínum, eða einmitt endurheimt úr meiðslum.

Hann kaus að gefa ekki kost á sér með Belgíu á EM í sumar til að setja fullan fókus á að snúa aftur heill heilsu fyrir Real Madrid á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×