Neytendur

Ör­tröð og tómar hillur á rýmingar­sölu Krónunnar

Margrét Björk Jónsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Alexander segir gaman að sjá að fólk hafi nýtt sér afsláttinn. 
Alexander segir gaman að sjá að fólk hafi nýtt sér afsláttinn.  Stöð 2

Örtröð myndaðist í verslun Krónunnar á Granda í dag þar sem rýmingarsala fór fram. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagðist verslunarstjóri eiga von á því að allar hillur verði tómar í kvöld.

Fyrirhugaðar eru framkvæmdir í verslun Krónunnar úti á Granda. Verslunin verður lokuð meðan á breytingum stendur og því var haldin rýmingarsala í dag, þar sem allar vörur voru á 25 prósent afslætti.

„Við erum að fara í risastórar breytingar hér, frá gólfefni upp í lýsingu og allskonar nýtt. Kælitæki að koma og frystitæki og jafnvel opnun nokkurra veitingastaða inni. Það verður svaka breyting og upplifun viðskiptavina verður töluvert betri eftir þessar breytingar,“ segir Alexander Kolesnyk, verslunarstjóri Krónunnar á Granda. 

Viðskiptavinir létu ekki sitt eftir liggja við aðstoð á rýmingu verslunarinnar. „Það var metmæting klukkan níu. Það hefur aldrei sést. Það er nóg að gera,“ segir Alexander. 

Eru flestir að gera sér stórinnkaup?

„Já flestir eru með hressileg innkaup og það er mjög gaman að sjá að það er fólk að nýta þetta.“

Innkaupin kalli á ísskápstiltekt

Mæðgurnar María og Ellý voru meðal þeirra sem nýttu sér afsláttinn.

„Mikið gos og allskonar fyrir smoothie-bowls, svona hafradót og svona ökólógískt sem er dýrt. Og kjöt, við keyptum svolítið af kjöti. Þannig að það er doomed að maður fari í tiltekt í dag, í ísskáp og frysti, til að koma öllu fyrir,“ segir María um innkaup sín á rýmingarsölunni. 

María segir að nú sé mikið að bera eftir stórinnkaupin. „Og ég bý á þriðju hæð í blokk,“ segir hún. „Ég fæ manninn minn með mér í þetta.“

Aðspurður segist Alexander búast við því að hillurnar verði tómar á morgun. „Ég vona að þetta verði tómt í kvöld,“ segir hann og hlær. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×