Erlent

Hús hrynj­a vegn­a for­dæm­a­lausr­a flóð­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 170 hús hafa hrunið og sex hundruð hafa skemmst í Himachal Pradesh.
Um 170 hús hafa hrunið og sex hundruð hafa skemmst í Himachal Pradesh. AP/Aqil Khan

Rúmlega hundrað manns hafa látið lífið vegna umfangsmikilla flóða í norðurhluta Indlands í vikunni. Flóðunum hefur verið lýst sem fordæmalausum en þau fylgja fordæmalausum rigningum á monsúntímabilinu svokallaða, sem hófst í síðasta mánuði.

AP fréttaveitan segir að minnst 88 hafi dáið í Himachal Pradesh héraði þar sem flóð hafi sópað bílum, vegum og heilu húsunum á brott. Yfirvöld Í Himachal Pradesh segja um 170 hús hafa hrunið og um sex hundruð hafa skemmst vegna rigninganna þar og flóða.

Sunnar, í héraðinu Uttar Pradesh, hafa minnst tólf dáið. Þar af drukknuðu níu, tveir urðu fyrir eldingu og einn dó vegna snákabits. Þar til viðbótar hefur einn dáið í Nýju Delí og fjórir í þeim hluta Kasmírhéraðs sem Indverjar stjórna.

Nærri því þrjátíu þúsund manns halda til í neyðarskýlum.

Yfirborð Jamuna árinnar á Indlandi hefur ekki mælst hærra í fjörutíu ár. Það hefur leitt til flóða í Nýju Delí, þó ekki hafi rignt mikið þar. Íbúar borgarinnar hafa verið beðnir um að halda sig heima. hafi þeir tök á. Skólum hefur verið lokað fram yfir helgi og lestir hafa verið stöðvaðar, samkvæmt frétt Times of India.

Búist er við því að vatnið muni byrja að ganga til baka í höfuðborginni seinna í dag.

Hér að neðan má sjá myndefni frá Nýju Delí í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×