Erlent

Meið­yrða­máli Niemann gegn Carl­sen vísað frá

Kjartan Kjartansson skrifar
Carlsen (t.v.) hætti þátttöku eftir skákina við Niemann á móti í St. Louis í fyrra.
Carlsen (t.v.) hætti þátttöku eftir skákina við Niemann á móti í St. Louis í fyrra. Saint Louis Chess Club/Crystal Fuller

Alríkisdómstóll í Missouri í Bandaríkjunum vísaði meiðyrðamáli Hans Niemann gegn norska stórmeistaranum Magnusi Carlsen og skákvefnum Chess.com frá dómi í gær. Niemann krafðist hundrað milljóna dollara í bætur vegna ásakana um að hann hefði haft rangt við þegar hann sigraði Carlsen á móti í fyrra.

Mikla athygli vakti þegar Niemann, sem er aðeins nítján ára gamall, lagði Carlsen, besta skákmann heims, að velli á móti sem var haldið í St. Louis í Missouri í fyrra. Carlsen dró sig úr mótinu og sakaði Niemann um að svindla. Ýmsar framandlegar tilgátur um hvernig Niemann hefði svindlað fóru þá á kreik. Niemann neitaði því.

Niemann höfðaði mál gegn Carlsen og Chess.com og sakaði um að setja sig á svartan lista þannig að honum væri ekki boðið á stór skákmót. Einnig sakaði hann Carlsen og vefinn um meiðyrði vegna þess sem hann sagði rangra ásakana þeirra um svindl.

Dómarinn í málinu vísaði frá kröfu Niemann um að Carlsen og Chess.com hefðu brotið samkeppnislög með því að útiloka hann frá mótum. Þá hefði alríkisdómstóllinn ekki lögsögu til að fjalla um meint meiðyrði þeirra stefndu á grundvelli ríkislaga í Missouri, að því er segir í frétt Reuters.

Lögmenn Niemann segja að þeir ætli að höfða málið aftur fyrir ríkisdómstól í Missouri. Verjandi Carlsen fagnaði því að dómstóllinn hefði hafnað tilraun Niemann til þess að fá skjótfenginn gróða fyrir dómi og þagga niður í tjáningarfrelsinu með málaferlum.


Tengdar fréttir

Yfir­vofandi mála­ferli ekki af­sökun

Heimsmeistarinn Magnus Carlsen kveðst ekki ætla að láta málsókn skákmannsins Hans Niemann hafa áhrif á taflmennskuna. Carlsen er staddur hér á landi til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í Fischer-skák og hafa andstæðingar hans lýst yfir stuðningi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×