Erlent

Telja að systrum hafi verið nauðgað áður en þær voru hengdar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjölskylda stúlknanna segir að þeim hafi verið rænt, nauðgað og svo myrtar.
Fjölskylda stúlknanna segir að þeim hafi verið rænt, nauðgað og svo myrtar. Getty/Sunil Ghosh

Lögreglan í indverska héraðinu Uttar Pradesh telur að systrum á unglingsaldri, sem fundust hengdar í tré, hafi verið nauðgað áður en þær voru myrtar. Sex hafa verið handteknir vegna málsins. 

Lík systranna tveggja fundust síðdegis í gær á Lakhimpur svæðinu í gær. Lögregla hóf rannsókn eftir að fjölskylda systranna hélt því fram að þeim hafi verið rænt og nauðgað. Þá hafa lík þeirra verið send til krufningar. 

Systurnar, sem hvorug var orðin átján ára gömul, voru hluti af Dalit stéttinni, neðstu stétt indverska stéttakerfisins. Þrátt fyrir stjórnarskrárvarin réttindi verður fólk af stéttinni oft fyrir ofbeldi og fordómum og konur úr Dalitstétt eru oft taldar líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrar. 

Lögreglan hefur haldið því fram að stúlkurnar hafi þekkt árásarmenn sína en fjölskyldan neitar því. Haft er eftir móður stúlknanna í staðarmiðlum að stúlkunum hafi verið rænt af mönnum á mótorhjólum og að þegar hún hafi reynt að stöðva þá hafi þeir gengið í skrokk á henni.

Fjölskyldan hafi farið að leita stúlknanna og loks fundið þær hengdar í tré. Sanjeev Suman, lögreglustjóri á svæðinu, sagði að stúlkurnar hafi verið færðar á sykurreirsakur þar sem þeim hafi verið nauðgað og þær kyrktar. Í kjölfarið hafi mennirnir hengt stúlkurnar í trénu til þess að villa um fyrir lögreglu og láta dauða stúlknanna líta út sem sjálfsvíg. 

Fjölskyldan mótmælti lögreglu

Að sögn lögreglu var einn hinna grunuðu handtekinn eftir að til skotbardaga kom milli hans og lögreglu þegar hann reyndi að flýja. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir staðarmiðlum að lögregla hafi mætt nokkurri mótstöðu þegar hún fór að heimili fjölskyldunnar í gærkvöldi. Fjöldi nágranna hafi verið saman kominn til stuðnings fjölskyldunni á heimili hennar til að mótmæla lögreglunni. 

Dalit-samfélagið er sagt treysta lögreglu mjög illa vegna illrar meðferðar hennar á fólki innan stéttarinnar. Fjöldi mála hefur komið upp er varða meðlimi Dalit-stéttarinnar, þar sem lögregla er sögð hafa staðið sig illa í rannsókn mála. 

Til dæmis er tekin hópnauðgun og orð á nítján ára gamalli Dalit-konu árið 2020 þar sem lögregla var gagnrýnd harðlega. Fjölskylda konunnar heldur því fram að lík konunnar hafi verið brennt án samþykkis fjölskyldunnar og án þess að hún fengi tækifæri til að kveðja hana. 


Tengdar fréttir

Dauðarefsing við nauðgunum á Indlandi

Ríkisstjórn Indlands hefur samþykkt dauðarefsingu fyrir nauðgara sem hafa nauðgað stúlkum yngri en 12 ára. Á sama tíma var lágmarksrefsing fyrir nauðganir hækkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×