Erlent

Hvetja aðildar­ríki til sam­dráttar í gas­notkun

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen segir frá áætlunum sambandsins vegna mögulegs skorts á gasi.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen segir frá áætlunum sambandsins vegna mögulegs skorts á gasi. Associated Press/Virginia Mayo

Evrópusambandið segir Evrópubúum að búa sig undir skort á gasi en möguleiki sé á frekari niðurskurði á flæði frá Rússlandi, það segir Rússland vopnvæða útflutning á gasi.

Tímabundinni lokun Nord Stream gasleiðslunnar vegna árlegs viðhalds á að ljúka á morgun. Óttast er að Vladímír Pútín Rússlandsforseti muni nota lokunina til þess að refsa löndum Evrópu fyrir mótmæli þeirra gegn innrás Rússlands í Úkraínu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ástandsins vegna lagt til samdrátt í neyslu ríkja sambandsins á gasi um 15 prósent þar til 31. mars á næsta ári. Framkvæmdastjórnin hefur einnig gefið út leiðir fyrir aðildarríki til þess að komast að 15 prósenta samdrætti. Sé gripið til aðgerða núna sé mögulegt að koma í veg fyrir lækkun vergrar landsframleiðslu aðildarríkja.

Samkvæmt yfirvöldum í Þýskalandi gætu tafir á afhendingu túrbínu sem var í viðgerð í Kanada veitt Rússlandi afsökun til þess að lengja lokunina á Nord Stream 1 leiðslunni. Þessu greinir Reuters frá.

Sérfræðingar í orkumálum virðast ekki sammála um það hverjar líkurnar séu á því að Rússland opni fyrir flæði á gasi á morgun. Sumir benda þó á að Rússland þurfi á sölunni að halda jafn mikið og Evrópa gasinu sjálfu. Samkvæmt finnskri rannsóknarstofnun eigi Rússland að hafa þénað 24 milljarða evra vegna sölu á gasi í gegnum leiðsluna fyrstu hundrað daga stríðsins í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×