Erlent

„Hættulegasti maður Noregs“ tekinn höndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Millehaugen er 53 ára gamall. Lögreglan segir að hann hafi verið volkaður eftir útiveruna. Hann verði því mögulega ekki yfirheyrður strax.
Millehaugen er 53 ára gamall. Lögreglan segir að hann hafi verið volkaður eftir útiveruna. Hann verði því mögulega ekki yfirheyrður strax. Norska lögreglan

Norska lögreglan hafði hendur í hári Stigs Millehaugen sem hafði verið á flótta í viku. Millehaugen afplánaði fangelsisdóm fyrir tvö morð og honum er lýst sem „hættulegasta manni Noregs“.

Lögreglumenn fundu Millehaugen við gatnamót í skógi í eftirlitsferð í Austurmörk í dag. Rune Hekkelstrand, yfirmaður leitarinnar hjá lögreglunni í Osló, segir að handtakan hafi verið „ódramtatísk“. Svo virðist sem að Millehaugen hafi hafst við utandyra.

Lýst var eftir Millehaugen eftir að hann skilaði sér ekki í fangelsi í Þrándheimi í lok dagsleyfis í síðustu viku. Hann hefur afplánað tíu ár af tuttugu og eins árs löngum fangelsisdómi sem hann hlaut árið 2012.

Lögreglan fékk ábendingu sem leiddi hana á slóð Millehaugen í Austurmörk, að sögn dagblaðsins VG. Lögreglumenn hafi svo séð hann á gangi á vegi þar í morgun.

„Hann var ekki vopnaður en hann var með lítinn vasahníf með sér, líklega til að geta komist af utandyra,“ segir Børge Enoksen, lögfræðingur hjá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×