Neytendur

Að­sókn í lands­byggðar­strætó hrynur: Miðinn á ellefu þúsund til Akur­eyrar

Snorri Másson skrifar
Strætó boðar gagngera endurskoðun á almenningssamgöngum á landsbyggðinni.
Strætó boðar gagngera endurskoðun á almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Vísir

Hraðlest á milli landshluta? Ekki í þessu lífi, segir forstöðumaður almenningssamgöngudeildar Vegagerðarinnar. Aftur á móti er boðuð alger endurskoðun á Strætó á landsbyggðinni.

Það hefur löngum verið mál manna að það sé í mörgu tilliti hálfvonlaust að ferðast um landsbyggðina með almenningssamgöngum. Vegagerðin - sem útvistar þessari þjónustu til Strætó bs. - áttar sig á vandanum og ætlar nú að taka kerfið til gagngerrar endurskoðunar.

Í fréttatíma kvöldsins var kíkt niður í Mjódd og kannaðir möguleikarnir á Strætó til Akureyrar. Þeir eru ekki ýkja fýsilegir, 28 stopp og sex og hálfs tíma ferðalag á 10.780 krónur.

Sitt sýnist hverjum um það hvort það sé sérstaklega góður díll, segir Halldór Jörgensen, forstöðumaður almenningssamgöngudeildar Vegagerðarinnar. „Það þarf tekjur til að reka kerfið en að sjálfsögðu viljum við fleiri notendur,“ segir Halldór.

Til samanburðar kostar 40 mínútna flug sama dag um 16.000 krónur. Það er að vísu óvenjugott verð, en kannski engin furða að notkun á Strætó á landsbyggðinni hefur dregist verulega saman — á meðan hún eykst í samanburðarlöndum.

„Því miður komum við ekki vel undan Covid, sérstaklega ekki í landssamgöngum. Við sjáum að okkur vantar farþega í Strætó á landsbyggðinni og erum að endurskoða kerfið, hvort við séum á einhverjum stöðum ekki að keyra á réttri tíðni eða réttar leiðir,“ segir Halldór.

Halldór Jörgensen, forstöðumaður almenningssamgöngudeildar Vegagerðarinnar, hefur miklar efasemdir um lestarkerfi á Íslandi.Vísir

Heimakærir höfuðborgarbúar eru að vonum ekki helteknir af þessum þáttum dagsdaglega; en oft vakna þeir við vondan draum þegar þeir þurfa sjálfir út á land. Jón Gnarr, sem hefur unnið í leikhúsi á Akureyri í vetur, er orðinn ötull talsmaður hraðlestar á Íslandi. Hvað segir Vegagerðin við því?

„Ég sé það ekki gerast á mínum líftíma. Það er bara of dýrt,“ segir Halldór Jörgensson.

Ekki allir eru sáttir við það sjónarmið ef marka má samfélagsmiðla:


Tengdar fréttir

Vill að einhver annar stofni Lestarflokkinn

Jón Gnarr segist ekki hafa í hyggju að stofna nýtt framboð undir nafinu Lestarflokkurinn, þrátt fyrir að hafa notað myllumerkið #Lestarflokkurinn á Twitter í gríð og erg að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×