Fótbolti

Snýr aftur í norska landsliðið eftir fimm ára útlegð: „Heia Norge“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ada Hegerberg lék síðast með norska landsliðinu í 0-1 tapi fyrir Danmörku 24. júlí 2017. Leikurinn var á EM í Hollandi.
Ada Hegerberg lék síðast með norska landsliðinu í 0-1 tapi fyrir Danmörku 24. júlí 2017. Leikurinn var á EM í Hollandi. getty/Catherine Ivill

Eftir fimm ára útlegð er Ada Hegerberg, samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Lyon, komin aftur í norska landsliðið.

Norskir fjölmiðlar fengu veður af þessu í gær og fréttirnar voru svo staðfestar í morgun þegar norski hópurinn fyrir leikina gegn Kósóvó og Póllandi í undankeppni HM var kynntur. María Þórisdóttir, leikmaður Manchester United, er á sínum stað í norska hópnum.

Hegerberg hefur ekki spilað fyrir norska landsliðið síðan á EM 2017, eða í tæp fimm ár. Hún var ósátt við starfshætti norska knattspyrnusambandsins og fannst það ekki sýna kvennalandsliðinu nógu mikla virðingu.

Nú hefur stríðsöxin verið grafin og Martin Sjögren, þjálfari norska landsliðsins, getur nú loksins telft sínum besta leikmanni fram. Þrátt fyrir að hafa bara verið 22 ára þegar hún hætti í landsliðinu 2017 hefur Hegerberg leikið 66 landsleiki og skorað 38 mörk.

Hegerberg sneri aftur á völlinn síðasta haust eftir tuttugu mánaða fjarveru vegna hnémeiðsla. Hún hefur skorað tólf mörk í sautján leikjum á þessu tímabili.

Hin 26 ára Hegerberg varð fyrsta konan til að hljóta Gullboltann 2018. Hún hefur leikið með Lyon síðan 2014 og unnið fjölda titla með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×