Erlent

Rússar verði háðir Kín­verjum eftir nýjustu efna­hags­þvinganir

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Finnur Magnússon aðjúnkt í alþjóðarétti.
Finnur Magnússon aðjúnkt í alþjóðarétti. vísir/adelina

Evrópu­sam­bandið ætlar að meina Rússum að­gang að Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum sem myndi gera þá al­ger­lega háða Kín­verjum eða Ind­verjum þegar efna­hagur landsins hrynur. Þetta er á meðal þess sem kynnt var í fjórða pakka þvingunar­að­gerða gegn Rúss­landi í gær.

Í fjórða pakkanum voru kynntar enn grófari við­skipta­þvinganir sem Evrópu­sam­bandið mun beita gegn Rússum.

Bæði Banda­ríkin og Japan munu grípa til sam­bæri­legra að­gerða.

Hærri tollar á rússneskar vörur

Helsta að­gerðin er sú að af­nema svo­kallaða bestu-kjara-með­ferð Rúss­lands í al­þjóð­legum við­skiptum.

„Í fram­kvæmd mun þetta leiða til þess að tollar á rúss­neskar vörur, sem hafa nú þegar ekki verið bannaðar, tollar á rúss­neskar vörur munu hækka veru­lega,“ segir Finnur Magnús­son doktor í þjóða­rétti og aðjúnkt við Há­skóla Ís­lands.

Kanada­menn hafa þegar gripið til sömu að­gerða og hækkuðu í kjöl­farið tolla á rúss­neskum vörum um 35 prósent.

Það er enn ó­ljóst með öllu um hve mikið Evrópu­sam­bandið mun hækka tolla á rúss­neskar vörur.

Fréttastofa fylgdist grannt með gangi mála í Úkraínu í dag. Hægt er að lesa um það helsta sem gerðist í vaktinni hér að neðan: 

Ísland fylgi líklega á eftir

„Þessi nýi þvingunar­pakki, ef svo má kalla, er mjög nýr. Hann var náttúru­lega bara kynntur í gær. En ís­lensk stjórn­völd hafa fylgt Evrópu­sam­bandinu við inn­leiðingu þvingunar­að­gerða og miðað við það sem á undan er gengið er ekki ó­eðli­legt að eitt­hvað sam­bæri­legt myndi fylgja af hálfu ís­lenskra stjórn­valda,“ segir Finnur.

Þá segjast ríkin einnig ætla að beita sér fyrir því að af­nema réttindi Rúss­lands í Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum og Al­þjóða­bankanum.

„Þessar að­gerðir fram­kvæmda­stjórnarinnar og Banda­ríkjanna og Japan munu leiða til þess að Rússar munu ekki geta fengið lán hjá Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum til að bregðast við þeirri efna­hags­krísu sem nú er yfir­vofandi,“ segir Finnur.

En hvað þýðir það fyrir Rússa?

„Það er fyrir­séð að Rúss­land mun væntan­lega leita á náðir Kína eða jafn­vel Ind­lands. En það er með öllu ó­víst hvernig þessi ríki munu bregðast við þegar svig­rúm rúss­neskra stjórn­valda er orðið svona þröngt,“ segir Finnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×