Innlent

Biðin loks á enda: Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli ræst á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lyftan sem gestir í Hlíðarfjalli geta skellt sér í klukkan 13 á morgun.
Lyftan sem gestir í Hlíðarfjalli geta skellt sér í klukkan 13 á morgun. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli

Mikill fjöldi skíða- og brettafólks rennir sér í brekkunum í Hlíðarfjalli um helgina í nýföllnum snjó og veðurblíðu. Stór stund verður á morgun klukkan 13 þegar ný stólalyfta í fjallinu verður ræst. Biðin hefur verið löng en nú virðist allt klappað og klárt.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segist vera mjög peppaður fyrir morgundeginum. Lyftan hafi verið í keyrslu í allan dag, verði í gangi frá 13-16 á morgun og svo frá 10-16 á sunnudaginn. Formleg vígluathöfn verður þó haldin síðar.

Brynjar Helgi er sjálfur fjarri góðu gamni, heima með Covid-19. Hann segir mikið álag á starfsfólki í fjallinu enda brjálað að gera. Verið að troða nýjar leiðir eftir alla ofankomuna, standa vaktina í lyftunni og svo er það auðvitað skíðaleigan, veitingasalan og svo fram vegis.

Hiti á Akueyri er við frostmark og stillt. Fínustu aðstæður til að renna sér eftir mikla ofankomu undanfarna daga. Á morgun er spáð köldu en björtu hægviðri og verður lyftan því gangsett við kjöraðstæður .

Vegna aðstæðna og mikils bratta svo hátt í fjallinu, verður lyftan eingöngu notuð þegar skyggni er gott og snjóflóðahætta í lágmarki.

„Það verður mikil gleði upp frá á morgun,“ segir Brynjar Helgi. Hann verður að bíða til mánudags eftir að mæta sjálfur á svæðið.

„Það verður góður dagur á skrifstofunni á mánudaginn.“


Tengdar fréttir

Allt að verða klárt í Hlíðarfjalli

Stefnt er að því að opna skíðasvæðið í Hlíðarfjalli við Akureyri á föstudaginn. Vonir standa til að jafnvel verði hægt að vígja nýja stólalyftu í fjallinu í þessum mánuði.

Frestast að taka nýju stóla­lyftuna í Hlíðar­fjalli í notkun

Það mun frestast um rúman mánuð eða svo að taka nýja skíðalyftu í Hlíðarfjalli í notkun. Taka átti lyftuna í notkun nú um mánaðamótin en greint er frá því á Facebook-síðu Akureyrarbæjar að það muni frestast af óviðráðanlegum orsökum.

Framkvæmdir við nýja skíðalyftu komnar á fullt

Framkvæmdir við gerð nýrrar stólalyftu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli við Akureyri eru komnar á fullt. Allt kapp er lagt á að lyftan verði komin í gagnið í tæka tíð fyrir skíðavertíðina í vetur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×