Innherji

Hildur vill heimila íslenska netverslun með áfengi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir er flutningsmaður frumvarps um að heimila innlenda netverslun með áfengi. 
Hildur Sverrisdóttir er flutningsmaður frumvarps um að heimila innlenda netverslun með áfengi. 

Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er flutningsmaður frumvarps um breytingu á lögum um netverslun með áfengi sem hún leggur fram í dag. Í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda.

Hildur segir í aðsendri grein á Innherja í morgun að frumvarpið sé skref í frelsisátt. „En felur líka í sér mikilvægar breytingar í jafnræðisátt, bæði til að jafna hlut innlendra framleiðenda á við erlenda sem og jafnræði fólks til að nálgast vöruna. Með frumvarpinu yrði einnig undirstrikað lögmæti innlendrar netverslunar sem hefur verið óvissu háð,” segir Hildur.

Vilja jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar

Í lögum er ekki fjallað um viðskipti almennings með áfengi við erlendar verslanir, til dæmis í gegnum vefverslanir, segir í frumvarpinu. Ekki sé óheimilt að almenningur kaupi áfengi í útlöndum og flytji til landsins til einkaneyslu. Aftur á móti hafi óvissa ríkt um hvort heimilt sé að starfrækja sambærilega vefverslun hér á landi sökum einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. 

Frumvarpinu er ætlað að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar að þessu leyti og undirstrika lögmæti innlendrar netverslunar með áfengi. Meðflutningsmenn Hildar eru þingmennirnir Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Öll eru þau úr Sjálfstæðisflokki. 

„Netverslun með áfengi hefur verið leyfileg um langt skeið í formi heimildar Íslendinga til að kaupa áfengi erlendis frá. Þetta fyrirkomulag hefur þýtt að fólk hefur getað pantað sér bandarískan bjór heim að dyrum frá erlendum netverslunum vandkvæðalaust, en ekki innlendum. 

Íslenska bjórinn er bannað að selja annars staðar en í áfengisverslunum ríkisins - nema hann sé fluttur fyrst út svo hægt sé að panta hann erlendis frá. Um þann punkt ríkir í öllu falli óásættanleg lagaleg óvissa sem verður að skýra,” segir Hildur enn fremur í greininni og undirstrikar þannig augljósan aðstöðumun milli erlendra framleiðenda og íslenskra brugghúsa.

„Og er auðvitað leikhús einhvers konar fáránleika sem erfitt að gera sér í hugarlund að hafi gerst vísvitandi,” segir Hildur.

Og er auðvitað leikhús einhvers konar fáránleika sem erfitt að gera sér í hugarlund að hafi gerst vísvitandi

Engum greiði gerður með því að erlendar netverslanir fái að eiga sviðið

Í greininni kemur enn fremur fram að íslensk bjór- og vínframleiðsla sé búgrein sem hafi eflst mjög síðustu ár. 

„Ekki síst vegna ástríðu og áhuga þeirra sem að standa þrátt fyrir stöðugt stapp við reglugerðir og hömlur sem takmarka möguleika þeirra til að selja sínar ágætu vörur. Við þetta bætist svo sú augljósa staðreynd að það er engum á Íslandi sérstakur greiði gerður með því að erlendar netverslanir njóti reksturs og atvinnusköpunar og borgi skatta í öðrum ríkjum frekar en á Íslandi.”

Hún segir frumvarpið fela í sér stóraukið jafnræði þeim til handa sem ekki geti eltst við það sem hún kallar útibúastefnu Vínbúðarinnar. 

„Frumvarpið er landsbyggðarmál fyrir þau sem þurfa að aka tugi kílómetra til að komast í vínbúð. Það snýst um sjálfbærni hverfa fyrir þau sem ekki eiga bíla og þurfa að sækja áfengið í bílastæðabúðir sem komið er fyrir í útjöðrum hverfa og bæja. Það er réttindamál fyrir öll þau sem ekki eiga heimangengt til dæmis vegna veikinda eða fötlunar en geta pantað langflestar aðrar vörur á netinu,” segir Hildur.


Tengdar fréttir

Já, þetta er forgangsmál

Ástandið undanfarna mánuði hefur snert okkur öll á einhvern hátt. Sumir hafa veikst, aðrir misst af stórum tímamótum og hjá enn öðrum er vinnan og lífsviðurværið undir.

Krefjast þess að fá að senda áfengi heim með mat ekki seinna en núna

Jakob E. Jakobsson eigandi Jómfrúarinnar í Lækjargötu er einn fjölda veitingamanna á Íslandi sem krefjast þess að frumvarp dómsmálaráðherra sem myndi heimila netverslun með áfengi fái flýtimeðferð og samþykkt í ljósi aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu.

Gefa ráðherra kost á að leggja til breytingar á áfengislöggjöf

Svo kann að fara að ekkert þingmannamál um smásölu áfengis verði lagt fram á komandi þingvetri en fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um heimild til netkaupa á áfengi kann að hafa áhrif. Áætlað er að leggja frumvarpið fram á vorþingi. Ekki liggur fyrir hvort slíkt frumvarp fæst samþykkt í ríkisstjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×