Enski boltinn

Bor­eham Wood á­fram eftir ó­væntan sigur á Bour­nemouth

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Boreham Wood fagna marki sínu.
Leikmenn Boreham Wood fagna marki sínu. Bryn Lennon/Getty Images

Boreham Wood er síðasta liðið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum FA bikarsins. Liðið vann einkar óvæntan 1-0 útisigur á B-deildarliði Bournemouth.

Fyrir leik Bournemouth og Boreham Wood var reiknað með auðveldum sigri heimamanna sem sitja í 3. sæti B-deildar á Englandi á meðan gestirnir sitja í 5. sæti E-deildar. Það er þó ástæða fyrir því að það er talað um „töfra bikarsins“ og þá höfum við fengið að sjá um helgina.

Chelsea og West Ham United þurftu framlengingu til að vinna neðri deildarlið Plymouth Argyle og Kidderminster Harriers. B-deildarlið Notthingham Forest og Middlesbrough unnu Leicester City og Manchester United. Nú var komið að Boreham Wood.

Mark Ricketts, miðvörður Boreham Wood, skoraði eina mark leiksins á 38. mínútu. Að segja að gestirnir hafi barist eins og ljós nær varla utan um frammistöðu þeirra en Bournemouth voru mikið mun betri aðilinn í leiknum.

Heimamenn voru 82 prósent leiksins með boltann og áttu alls 18 skot í átt að marki. Þeim tókst hins vegar aldrei að finna glufur á þéttri vörn gestanna sem stóð hvert áhlaupið á fætur öðru af sér. Aðeins tvo skot Bournemouth rötuðu á markið og þau varði Taye Ashby-Hammond í marki Boreham Wood.

Lokatölur á Vitality-vellinum 0-1 og E-deildarlið Boreham Wood komið í 16-liða úrslit FA-bikarsins þar sem liðið mætir Everton á Goodison Park.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×