Erlent

Nýtt undirafbrigði ómíkron sagt smitast auðveldar manna á milli

Samúel Karl Ólason skrifar
Grímuskylda hefur verið felld niður í Danmörku.
Grímuskylda hefur verið felld niður í Danmörku. EPA/LISELOTTE SABROE

Danskir vísindamenn segja nýtt undir-afbrigði ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar sem greinst hefur þar í landi smitast enn auðveldar manna á milli. Undirafbrigðið nefnist BA.2 og vísindamennirnir segja það vera um þriðjungi líklegra til að smitast manna á milli en BA.1.

45.366 manns greindust smituð af Covid-19 síðasta sólarhringinn í Danmörku. Þar af höfðu 2.515 smitast áður og samkvæmt frétt DR var hlutfall jákvæðra sýna 28,52 prósent.

Þá kemur einnig fram í frétt DR að nýgengi í Danmörku mælist 1,0. Haft er eftir Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, að það sé mögulega til marks um að faraldurinn hafi náð hámarki í Danmörku. Hann segir það þó óvíst. Nýgengi var í síðustu viku 1,2.

Yfirvöld í Danmörku skilgreina Covid-19 ekki lengur sem sjúkdóm sem ógni dönsku samfélagi og var í morgun fari í víðtækar afléttingar sóttvarnarreglna.

Danir hafa þurft að búa við grímuskyldu á opinberum stöðum, í almenningssamgöngum og víðar allt frá ágúst 2020, með hléum þó. Grímuskyldan er þó ekki lengur í gildi og notkun kórónupassans svokallaða hefur verið hætt.

Sjá einnig: Danir kveðja grímuna, „kórónupassann“ og fjölda­tak­markanir

Undirafbrigðið BA.2 er orðið ráðandi í Danmörku og náði efsta sæti, ef svo má að orði komast, í annarri viku janúar, samkvæmt frétt Reuters. Nú smitast um 82 prósent Dana sem fá Covid-19 af BA.2.

Danskir vísindamenn skoðuðu rúmlega 8.500 heimili þar sem kórónuveiran greindist milli desember og janúar og komust að þeirri niðurstöðu að BA.2 smitast auðveldar manna á milli an BA.1.

Samkvæmt vísindamönnunum virka bóluefni einnig verr á undirafbrigðið en á BA.1 og eigi auðveldar með að smita fólk sem hefur smitast áður. Reuters segir þó að niðurstöður rannsóknarinnar hafi ekki verið ritrýndar enn.


Tengdar fréttir

Af neyðarstigi niður á hættustig

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við sóttvarnalækni ákveðið að færa almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig vegna Covid-19. Neyðarstigi var lýst yfir 11. janúar síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×