Erlent

Búnaður Al Jazeera gerður upp­tækur og miðillinn í bann

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Al Jazeera er einn af örfáum alþjóðlegum miðlum sem senda enn beina fréttaumfjöllun frá Gasaströndinni.
Al Jazeera er einn af örfáum alþjóðlegum miðlum sem senda enn beina fréttaumfjöllun frá Gasaströndinni. AP

Hluti útsendingarbúnaðar katarska miðilsins Al Jazeera var gerður upptækur þegar lögregla réðst inn á hótelherbergi útsendara í Jerúsalem í dag. Miðlinum hefur verið bannað að starfa í landinu í að minnsta kosti 45 daga. 

Ríkisstjórn Ísraels ákvað fyrr í dag að vísa starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar úr landi, og sögðu ástæðuna þá að fréttamenn hennar væru stríðsæsingamenn. 

Skipunin er sögð mjög óvenjuleg, en í henni felst að koma í veg fyrir útsendingar með því að gera útsendingarbúnað miðilsins upptækan auk þess sem lokað hefur verið fyrir aðgang að miðlinum í landinu. Talið er að þetta sé fyrsta skiptið sem Ísraelsk yfirvöld loka á erlendan fjölmiðil með þessum hætti.

Al Jazeera hefur haldið uppi ítarlegri umfjöllun um stríðsrekstur Ísraels á Gasa frá upphafi stríðsins í október í fyrra. 

Miðillinn gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að forsvarsmenn Al Jazeera muni leitast eftir því að verja réttindi sín og fréttamannanna, sem og rétt almennings til upplýsingaöflunar. 

„Ísraelsmenn hafa bælt niður fjölmiðlafrelsið í þeim tilgangi að hylma yfir voðaverk þeirra á Gasa. Með þessu hafa þau brotið gegn alþjóða- og mannúðarlögum,“ segir í yfirlýsingunni frá Al Jazeera.

„Þó að Ísrael haldi áfram að drepa, handtaka og hóta blaðamönnum mun Al Jazeera ekki lúta í lægra haldi,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni. 

Samþykktu frumvarp um Al Jazeera í apríl

Ríkisstjórn Ísraels samþykkti í síðasta mánuði lagafrumvarp sem leyfir forsætisráðuneyti Netanjahús að grípa til aðgerða gegn erlendum fjölmiðli sem var sagður „skaðlegur fyrir þjóðina“. 

Shlomo Karhi samskiptaráðherra Ísraels birti í dag myndband af lögreglumönnum að ráðast inn á hótelherbergi en Al Jazeera hafði verið að senda út innan úr herberginu. Hótelið sem um ræðir er staðsett á Vesturbakkanum. Karhi sagði lögreglumennina hafa gert hluta útsendingarbúnaðarins inni í herberginu upptækan. 

„Við stöðvuðum loksins þá vel smurðu undirróðsvél Al Jazeera sem er skaðlegur öryggi ríkisins,“ segir Karhi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti hans verður miðlinum bannað að starfa í Ísrael næstu 45 dagana, hið minnsta. 

Ítarlega umfjöllun AP um málið má nálgast hér



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×