Erlent

Danir rýmka reglur um þungunar­rof

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. Breið pólitísk samstaða hefur náðst um að rýmka reglurnar um þungunarrof í landinu sem hafa haldist nær óbreyttar í rúm fimmtíu ár.
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. Breið pólitísk samstaða hefur náðst um að rýmka reglurnar um þungunarrof í landinu sem hafa haldist nær óbreyttar í rúm fimmtíu ár. EPA

Ríkisstjórn Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur náð samkomulagi við fjóra flokka í stjórnarandstöðunni um að rýmka reglur landsins um þungunarrof þannig að heimilt verði að gangast undir þungunarrof fram að átjándu viku meðgöngu.

Með þessu verða reglurnar rýmkaðar verulega, en þungunarrof hefur verið heimilt fram að tólftu viku meðgöngu. Þungunarrofsreglur Danmerkur hafa verið einar þær ströngustu í Evrópu og er þetta mesta breytingin á reglunum í fimmtíu ár. Reglurnar um tólf vikur voru settar árið 1973.

Greint var frá því í morgun að stjórn Frederiksen hafi náð samkomulagi um rýmkun reglanna við stjórnarandstöðuflokkana SF, Einingarlistann, De Radikale og Alternativet.

Sophie Løhde, innanríkis- og heilbrigðisráðherra, segir að hvað heilsu varðar sé ekkert sem réttlæti núverandi hámarksvikufjölda á meðgöngu til að gangast undir þungunarrof. Þá séu engar vísbendingar um að við reglubreytinguna komi tilfellum þungunarrofs til með að fjölga verulega.

Vilji konur fara í þungunarrof eftir átján vikna meðgöngu munu þær samkvæmt nýjum reglum þurfa að fara með málið fyrir sérstaka nefnd sem úrskurðar í málunum.

Nýju reglurnar sem samkomulag hefur náðst um gera einnig ráð fyrir að stúlkur fimmtán til sautján ára sem vilja gangast undir þungunarrof þurfi ekki lengur sérstakt samþykki eða leyfi foreldra eða nefndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×