Erlent

Hvít-Rússar hóta að skrúfa fyrir gasið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikilvægar gasleiðslur Rússa til Evrópu liggja í gegnum Hvíta-Rússland.
Mikilvægar gasleiðslur Rússa til Evrópu liggja í gegnum Hvíta-Rússland. Katja Buchholz/Getty Images)

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa hótað að skrúfa fyrir gasleiðslur sem liggja til ríkja Evrópusambandsins muni það beita ríkinu þvingunum vegna deilu um farendur á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands.

Mikill fjöldi farenda hefur safnast saman við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands en Pólverjar hafa kallað út fjölda hermanna til að verja landamærin.

Ráðamenn í ESB hafa sakað yfirvöld í Hvíta-Rússlandi um að kynda undir ástandið til þess að grafa undan öryggi ríkja ESN.

Ástandið má í raun rekja til deilna Evrópusambandsins og Alexanders Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, en sambandið hefur lagt harðar viðskiptaþvinganir á landið vegna alræðistilburða forsetans.

ESB hefur verið sagt hafa í hyggju að beita Hvíta-Rússland frekari þvingunum vegna ástandsins. Lúkasjenkó segir að verði það raunin þurfi Hvíta-Rússland að bregðast við.

„Við erum að hita upp Evrópu á meðan þeir hóta okkur?,“ sagði Lúkasjenkó og vísaði þar til rússneskrar gasleiðslu sem liggur til Evrópu í gegnum Hvíta-Rússland.

„Og hvað gerist ef við stöðvum þetta flæði? Ég mæli með því að leiðtogar Póllands, Litháens og aðrir hauslausir leiðtogir hugsi áður en þeir tali.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×