Erlent

Sólmyrkvi séður úr geimnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sólmyrkvinn séður úr geimnum.
Sólmyrkvinn séður úr geimnum. NASA

Sólmyrkvar hafa lengi heillað okkur mannfólkið. Allt frá því við héldum til í hellum og gera má ráð fyrir að þeir hafi hrætt fólk, til dagsins í dag þegar fólk leggur mikið á sig til að sjá sólmyrkva vel.

Þó sólmyrkvar séu tiltölulega sjaldgæfir er enn sjaldgæfara að sjá þá úr geimnum.

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) birti í dag myndefni sem tekið var af myndavél sem kallast EPIC og er um borð í gervihnettinum DSCOVR. Sá gervihnöttur er í rúmlega einnar og hálfrar milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðinni, milli jarðarinnar og sólarinnar.

Gervihnötturinn er helst notaður til að fylgjast með gróðurfari, skýjum og öðru. Þó kemur fyrir að gervihnötturinn fangar sólmyrkva. Það gerði hann síðast þann 10. júní, þegar tunglið varpaði skugga á norðurhvel Jarðarinnar.

Þá var tunglið nærri því eins langt frá jörðinni og það fer, svo skugginn var tiltölulega lítill, eða svokallaður hringmyrkvi. Hann verður þegar er of langt í burtu til þess að fylla út í skífu sólarinnar svo ljóshringur sést kringum tunglið.

Á jörðu niðri var hægt að hringmyrkva í Kanada, Grænlandi og Rússlandi, samkvæmt upplýsingum á vef NASA.

Hér á Íslandi og víðar í heiminum sást hann sem deildarmyrkvi.

Sjá einnig: Sjáðu sólmyrkvann í beinni

Áhugasamir geta skoðað fleiri myndir frá EPIC hér í myndasafni NASA.


Tengdar fréttir

Glitti í sól­myrkvann á höfuð­borgar­svæðinu

Nokkrir heppnir íbúar á höfuðborgarsvæðinu sáu glitta í sólina – og já, mánann í leiðinni – á milli skýjanna í morgun. Skýjað hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag og var því viðbúið að Íslendingar fengju ekki að berja sólmyrkva augum.

Gæti glitt í sól­myrkvann á milli rigningar­skýjanna

Útlit er fyrir að það rigni víðast hvar um landið þegar deildarmyrkvi á sólu gengur yfir í fyrramálið. Sérfræðingur Veðurstofu Íslands segir þó mögulegt að það rofi til inn á milli þannig að myrkvinn verði sjáanlegur, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×