Erlent

WHO: Ekki ástæða til að hætta að nota bóluefni AstraZeneca

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekker hefur komið fram sem bendir til tengsla á milli bóluefnis AstraZeneca og blóðtappa í fólki. Tilkynnt er um veikindi í kjölfar bólusetningar til að kanna allar mögulegar aukaverkanir en það þýðir ekki að bóluefnið hafi haft nokkuð um veikindin að segja.
Ekker hefur komið fram sem bendir til tengsla á milli bóluefnis AstraZeneca og blóðtappa í fólki. Tilkynnt er um veikindi í kjölfar bólusetningar til að kanna allar mögulegar aukaverkanir en það þýðir ekki að bóluefnið hafi haft nokkuð um veikindin að segja. Vísir/EPA

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur ekki ástæðu fyrir lönd að hætta að nota bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni. Ekkert bendi til þess að bóluefnið geti valdið blóðtappa. Ísland er á meðal þeirra ríkja sem hafa stöðvað bólusetningar með efninu tímabundið í öryggisskyni.

Ákvörðun íslenskra yfirvalda kom í kjölfar þess að Danir hættu að nota AstraZeneca-bóluefnið í tvær vikur vegna tilkynninga um mögulega alvarlegar aukaverkanir. Norðmenn hættu einnig að gefa bóluefnið.

Margaret Harris, talsmaður WHO, segir ekki innistæðu fyrir áhyggjum af því að bóluefnið geti valdið blóðtappa. Bóluefnið sé ágætt og lönd ættu að halda áfram notkun þess. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þegar hafi um fimm milljónir Evrópubúa fengið bóluefni AstraZeneca.

Um þrjátíu tilkynningar hafa borist um að fólk sem fékk blóðtapa eftir að það fékk bóluefnið, þar á meðal um eitt dauðsfall á Ítalíu. Ekki hefur verið sýnt fram á neitt orsakasamhengi á milli bólusetningarinnar og blóðtappanna, að sögn Harris. Lyfjastofnun Evrópu hefur tekið í sama streng.

AstraZeneca segir að hlutfall þeirra sem hafa fengið blóðtappa eftir að hafa fengið bóluefnið sé raunar töluvert lægra en búast mætti við í svo stórum hópi fólks almennt. BBC segir að í Bretlandi hafi ellefu milljónir manna fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninu og engin merki séu um aukna dánartíðni eða tíðni blóðtappa í þeim hópi.


Tengdar fréttir

Ekkert bendi til tengsla AstraZeneca við blóðtappa

Sérfræðingur í ónæmissfræðum segir ekkert benda til þess að tilfelli blóðtappa í Evrópu tengist bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Lyfjastofnun Evrópu heldur hinu sama fram í tilkynningu í dag og mælir áfram með bóluefni AstraZeneca.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×