Erlent

Ár síðan WHO lýsti yfir heimsfaraldri

Samúel Karl Ólason skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, sagði fyrir ári síðan að hann hefði áhyggjur af „ógnvekjandi aðgerðaleysi“ ráðamanna á heimsvísu.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, sagði fyrir ári síðan að hann hefði áhyggjur af „ógnvekjandi aðgerðaleysi“ ráðamanna á heimsvísu. EPA/Keystone

Miðvikudaginn 11. mars árið 2020 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því yfir að jarðarbúar væru með faraldur á höndunum. Nýja kórónuveiran, sem veldur Covid-19, væri í mikilli dreifingu og þá höfðu um 120 þúsund tilfelli greinst á heimsvísu.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, lýsti þessu yfir á blaðamannafundi og lýsti hann sömuleiðis yfir áhyggjum sínum yfir „ógnvekjandi aðgerðaleysi“ ráðamanna á heimsvísu.

Sjá einnig: Covid-19 skilgreint sem heimsfaraldur

Í dag eru tilfellin nokkuð fleiri en þá. Tæplega 120 milljónir manna hafa greinst smitaðir af veirunni og 2,6 milljónir hafa dáið, samkvæmt gagnagrunni Johns Hopkins háskólans, sem heldur utan um opinberar tölur.

Langflestir hafa bæði smitast og dáið í Bandaríkjunum. 29,2 milljónir hafa smitast þar og 530 þúsund hafa dáið. Í Kína, þar sem veiran greindist fyrst í mönnum, hafa rúmlega hundrað þúsund smitast og um 4.800 dáið.

Hér á Íslandi hafa 6.070 greinst smitaðir og 29 hafa dáið.

Sé miðað við íbúafjölda hefur 161,5 dáið á hverja hundrað þúsund íbúa í Bandaríkjunum. Í Bretlandi er sú tala 188,3 á hverja hundrað þúsund og 166,8 á Ítalíu. Í Tékklandi hafa 210,7 af hverjum hundrað þúsund íbúum dáið, samkvæmt samantekt Sky News.

Í Kína hafa 0,3 dáið af hverjum hundrað þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×