Viðskipti innlent

Mesti sam­dráttur í lands­fram­leiðslu á mann frá upp­hafi mælinga

Eiður Þór Árnason skrifar
Samdráttur í einkaneyslu var minni á síðasta ári en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þar hefur öflug jólaverslun og netverslun ekki skemmt fyrir. 
Samdráttur í einkaneyslu var minni á síðasta ári en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þar hefur öflug jólaverslun og netverslun ekki skemmt fyrir.  Vísir/Vilhelm

Hagstofan áætlar að landsframleiðsla hafi dregist saman um 5,1% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við sama tímabil 2019. Yfir árið í heild er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 6,6% að raungildi. Má það að miklu leyti rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins, einkum í útfluttri ferðaþjónustu sem dróst saman um 74,4% á árinu.

Áætlað er að einkaneysla hafi dregist saman um 3,3% að raungildi á árinu 2020 samanborið við 2019, að því er fram kemur í samantekt Hagstofu Íslands. Í síðustu þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birt var í október var gert ráð fyrir að landsframleiðsla myndi dragast saman um 7,6% árið 2020 og eru horfurnar því betri í þessum fyrstu áætlunum þjóðhagsreikninga. 

Mesti samdráttur á mann frá lokum seinni heimsstyrjaldar 

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar dróst landsframleiðsla á mann saman um 8,2% að raungildi á árinu 2020 að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,7%. Er það mesti samdráttur í landsframleiðslu á mann sem mælst hefur hér á landi frá upphafi mælinga eða frá árinu 1946.

Í mælingum gætir umtalsverðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á neyslu íslenskra heimila. Yfir árið í heild er áætlað að útgjöld Íslendinga erlendis hafi dregist saman um 65,2% frá fyrra ári, er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Landsframleiðsla tók mikla dýfu á síðasta ári.Hagstofa Íslands

Þrátt fyrir samdrátt í neyslu Íslendinga erlendis og sömuleiðis í ákveðnum útgjaldaflokkum innlendrar neyslu vegur aukning í öðrum að verulegu leyti upp þann samdrátt. Þannig er til að mynda áætlað að einkaneysluútgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði hafi aukist að raungildi um 7,6% á árinu 2020 og útgjöld vegna kaupa á áfengi og tóbaki um 10,8%.

Á sama tíma jókst samneysla um 3,1% að raungildi á liðnu ári samanborið við 3,9% vöxt árið 2019. Þá er áætlað að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi dregist saman um 1,9% og fjármunamyndun um 6,8.

Fleiri fullgerðar íbúðir en færri á fyrri byggingarstigum

Áætlað er að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020 borið saman við 8,0% árið 2019. Talið er að samdráttur í landsframleiðslu skýrist að verulegu leyti af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 22,0% á árinu á meðan útflutningur dróst töluvert meira saman eða um 30,5%.

Vöruútflutningur dróst saman um 8,5% á árinu en samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 51,2% á ársgrundvelli. Vöruinnflutningur dróst saman um 12,5% á árinu 2020 og innflutningur þjónustu um 38,5%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 17,5 milljarða króna á árinu 2020 borið saman við 153,9 milljarða króna jákvæðan jöfnuð árið 2019 á verðlagi hvors árs.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að þrátt fyrir að aukning í fjölda fullgerðra íbúða hafi ekki mælst meiri frá árinu 2007, eða tæplega fjögur þúsund íbúðir á árinu 2020, dróst íbúðafjárfesting saman um 1,2% á árinu 2020 borið saman við 2019. Skýrist það af samdrætti í fjölda íbúða á fyrri byggingarstigum á tímabilinu samanborið við fyrra ár.


Tengdar fréttir

Spá Seðlabankans um fjölda ferðamanna lækkar enn frekar

Seðlabanki Íslands spáir því nú að ríflega 700 þúsund ferðamenn komi til landsins í ár sem eru færri en gert var ráð fyrir í nóvember. Til samanburðar komu 480 þúsund ferðamenn til landsins á síðasta ári. Fram kemur í nýjasta hefti Peningamála að útflutningshorfur fyrir þetta ár hafi almennt versnað frá síðustu spá.

Það versta lík­lega af­staðið og út­lit fyrir bjartari tíma

Ný þjóðhagsspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir 3,2% hagvexti á þessu ári sem megi að stærstum hluta þakka vexti í ferðaþjónustu ásamt hóflegum vexti neyslu og fjárfestingar. Sem fyrr eru stærstu einstöku óvissuþættir efnahagsþróunarinnar á Íslandi sagðir vera hvenær faraldurinn tekur enda og ferðavilji tekur að aukast á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×