Viðskipti innlent

Úrskurður um upplýsingar KPMG um Samherja aftur í hérað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samherji hafði áður reynt að fá úrskurðinn felldan úr gildi.
Samherji hafði áður reynt að fá úrskurðinn felldan úr gildi. Vísir/Egill

Landsréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember á síðasta ári um að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG bæri að afhenda héraðssaksóknara gögn í sinni vörslu um þjónustu við útgerðarfyrirtækið Samherja. KPMG átti aðild að málinu en Samherji hafði áður reynt að fá úrskurðinn felldan úr gildi.

Landsréttur fjallaði áður um málið í lok janúar síðastliðins, en þá var talið að Samherja hf. og Samherja Holding ehf. skorti heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms.

„Í því máli var upplýst, og hefur það verið staðfest að nýju hér fyrir rétti, að rannsóknargögn lágu ekki frammi við fyrirtöku málsins en samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 skulu kröfu fylgja þau gögn sem hún styðst við,“ segir í úrskurðinum sem Landsréttur kvað upp í dag.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að fyrir héraðsdómi hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til kröfu héraðssaksóknara um að KPMG afhenti umrædd gögn. Héraðsdómara hefði verið rétt að krefja saksóknaraembættið um gögnin áður en krafan yrði tekin til meðferðar, svo hægt væri að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði í málinu væru uppfyllt.

„Samkvæmt framanrituðu var meðferð málsins í héraði svo áfátt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Vísir fjallaði ítarlega um málið fyrr í þessum mánuði, eftir að bæði Landsréttur og Hæstiréttur vísuðu kærum Samherja vegna úrskurðarins frá dómi.


Tengdar fréttir

Saksóknari fær gögn KPMG um Samherja eftir allt saman

Hæstiréttur hefur vísað frá kæru útgerðarfélagsins Samherja sem barist hefur fyrir dómstólum gegn því að endurskoðunarfyrirtækið KMPG þurfi að afhenda héraðssaksóknara gögn varðandi bókhald og reikningsskil Samherja hf og Samherja holding undanfarinn áratug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×