Erlent

„Þið eruð ekki ein“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Elísabet Englandstrottning flutti sitt árlega jólaávarp í gær.
Elísabet Englandstrottning flutti sitt árlega jólaávarp í gær. AP/Victoria Jones

Elísabet Englandsdrottning nýtti tækifærið í jólaávarpi sínu í gær til að fullvissa þau sem hafa átt erfitt, fjarri vinum sínum og fjölskyldu á þessu ári, um að þau séu ekki ein. Hún sagði að það sem marga langi í um jólin sé „einfalt faðmlag eða þétt handtak,“ en að „jafnvel dimmustu um nætur fylgi von með nýjum degi.“

Drottningin sem er orðin 94 ára sagði heimsfaraldurinn hafa þjappað fólki saman, þrátt fyrir að hafa valdið miklum erfiðleikum. Líkt og svo margir aðrir varði drottningin jólunum án fjölskyldu sinnar. Hún og eiginmaður hennar Filippus vörðu jólunum í Windsor-kastala en ekki á Sandringham sveitasetrinu með fjölskyldunni líkt og venjulega.

„Merkilega, þá hefur ár, þar sem fólki var að nauðsynju haldið í sundur, á margan hátt þjappað okkur betur saman,“ sagði drottningin í ávarpi sínu. Hún sagði konungsfjölskylduna hafa fengið innblástur frá því fólki sem hefur gegnt sjálfboðastarfi í samfélaginu.

„Í Bretlandi og um heim allan hefur fólk með stórkostlegum hætti risið upp og mætt áskorunum þessa árs, og ég er svo stolt og hrærð yfir þessum hljóðláta og þrautseiga anda,“ sagði drottningin.

„Auðvitað fyrir marga fylgir þessum tíma árs mikil sorg. Sumir syrgja missi ástvina og aðrir sakna vina og fjölskyldumeðlima sem eru fjarri af öryggisástæðum, þegar það sem þau virkilega vilja í jólagjöf er einfalt faðmlag eða þétt tak um höndina,“ bætti drottningin við. „Ef þið eruð meðal þeirra, þá eruð þið ekki ein,“ sagði drottningin sem þakkaði jafnframt sérstaklega ungu fólki, framlínustarfsfólki og miskunsömum samverjum sem hafi sýnt öllum umhyggju og virðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×