Erlent

Sænskir nem­endur grunaðir um skipu­lagða út­breiðslu veirunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Um 70 þúsund manns búa í Östersund við Storsjön í Jämtland.
Um 70 þúsund manns búa í Östersund við Storsjön í Jämtland. Getty

Lögregla í sænska bænum Östersund rannsakar nú hvort að nemendur í framhaldsskóla hafi vísvitandi reynt að breiða út kórónuveiruna í þeirri von að mynda mótefni og þannig geta dimmiterað næsta vor.

SVT greinir frá málinu en búið er að tilkynna fjölda nemenda í framhaldsskóla í bænum til lögreglu. Eru nemendurnir sagðir hafa reynt að hafa uppi á smituðum einstaklingum, reynt að smitast sjálfir og svo reynt smita fleiri.

Nemendurnir eru sagðir hafa reynt að smitast sjálfir til að geta fagnað stúdentsprófunum almennilega líkt og hefð er fyrir í Svíþjóð.

Haft er eftir Monicu Sandström, formanni nemendafélagsins í Jämtlands Gymnasium, að hún kannist ekki við þessa hegðun nemenda, en að vitað sé að fjölmargir séu þreyttir á fjarkennslu og samkomutakmörkunum. Viti hún til þess að margir hafi sagst vona að þeir myndi mótefni til að geta fagnað lokum framhaldsskólans í vor. Hún hafi þó túlkað allt slíkt tal sem grín.

Hún fordæmir þá hegðun sem einhverjir kunni nú að vera grunaðir um og segir hana sýna „ótrúlegt tillitsleysi“ í garð annarra.

SVT segir að enn sem komið sé sé enginn nemandi með stöðu grunaðs manns, en að málið sé og verði áfram til rannsóknar hjá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×