Erlent

Orð ársins of mörg til að velja eitt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þrjú af orðum ársins 2020.
Þrjú af orðum ársins 2020. Getty/Kena Betancur

Forsvarsmenn Oxford-orðabókarinnar sjá sér ekki fært að velja eitt ákveðið orð sem orð ársins líkt og venja er. Þess í stað hafa mörg orð orðið fyrir valinu á þessu fordæmalausa ári.

Guardian greinir frá og segir að forsvarsmenn orðabókarinnar hafi einfaldlega sagt að orðin væru einfaldlega of mörg þetta árið til þess að velja eitthvað eitt orð sem staðið hefur upp úr. Þess í stað voru mörg orð fyrir valinu, orð á borð við kórónuveira, útgöngubann, R-tala, framlínustarfsmenn og svona mætti áfram telja, en orðin sem urðu fyrir valinu má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Starfsmenn orðabókarinnar hafa einnig greint talsverða breytingu á orðanotkun og nefna þeir að vísindaleg hugtök á borð við R-tölu hafi komist í almenna umræðu, ásamt hugtökum á borð við það að sveigja kúrvuna og samfélagssmit. Þá hefur notkun á orðatiltækunu „follow the science“ eða „fylgið vísindunum“, aukist um 1000 prósent á milli ára.

Þá er það sérstaklega tekið fram að Covid-19 hafi fyrst birst á prenti árið 2019 í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar og hafi það hugtak fljótt tekið yfir notkun á orðinu kórónuveira, þó að það orð hafi áfram verið algengt.

Notkun á öðrum orðum í tengslum við faraldurinn hefur einnig aukist mikið á milli ára. Þannig hefur orðið faraldur verið notað 57 þúsund prósent oftar á þessu ári en því síðasta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×