Erlent

Hvíta húsið reynir að stöðva útgáfu bókar Bolton

Samúel Karl Ólason skrifar
John Bolton.
John Bolton. AP/Luis M. Alvarez

Þjóðaröryggisráð Hvíta hússins hefur sent lögmanni John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donald Trump, forseta, bréf um bók hans og krafist þess að hún verði ekki gefin út að svo stöddu. Ráðið segir bókina innihalda mikið af ríkisleyndarmálum. Bók þessi inniheldur kafla þar sem Bolton segir Trump hafa sagt sér að umdeild stöðvun neyðaraðstoðar til Úkraínu væri ætlað að þrýsta á forseta Úkraínu svo hann hæfi rannsóknir sem Trump myndi hagnast persónulega á.

Hvíta segir að ekki sé verið að reyna að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar, heldur eingöngu þeirra hluta sem innihalda ríkisleyndarmál.

Trump og bandamenn hans á þingi og í fjölmiðlum hafa gengið hart fram gegn Bolton í kjölfar fregna um bókina, því það að Trump og Bolton hafi átt áðurnefnd samskipti snýr með beinum hætti að réttarhöldunum gegn Trump fyrir meint embættisbrot hans.

Demókratar hafa krafist þess að Bolton verði fenginn til að bera vitni í réttarhöldunum, sem standa nú yfir, en Repúblikanar hafa barist gegn því.

Sjá einnig: Komið annað hljóð í strokkinn hjá Repúblikönum

Sjálfur hefur Trump tíst tvisvar sinnum um Bolton í dag og gagnrýnt hann harðlega. Annars vegar veltir Trump því fyrir sér af hverju Bolton kvartaði ekki fyrr yfir þessum meintu brotum forsetans þegar hann var rekinn.

Í hinu tístinu sagði Trump að Bolton hefði hvergi getað fengið starf og hefði grátbeðið sig um starf í Hvíta húsinu, sem þingmenn þyrftu ekki að greiða atkvæði um, og það hafi hann gert þvert á viðvaranir margra.

Þá sagði Trump að bókin væri andstyggileg og ósönn. Þar að auki innihéldi hún ríkisleyndarmál.


Tengdar fréttir

Pressa á Repúblikönum

Tveir mikilvægir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins segja fregnir um John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donald Trump, ýta undir það að kalla eigi hann, og mögulega aðra, til að bera vitni í réttarhöldunum gegn Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×