Viðskipti innlent

Tryggja sér fleiri hundruð milljónir í þróun lyfs við lungnaþembu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fredrik Lehmann forstjóri, Friðrik Rúnar stofnandi og Finnur Friðrik Einarsson rekstrarstjóri.
Fredrik Lehmann forstjóri, Friðrik Rúnar stofnandi og Finnur Friðrik Einarsson rekstrarstjóri. Aðsend

Íslenskt lyfjafyrirtæki sem vinnur að þróun lyfs við lungnaþembu lauk nýlega tveggja milljóna evra hlutafjáraukningu eða sem svarar til 275 milljóna króna.

Fyrirtækið heitir Epiendo Pharmaceuticals ehf. og í byrjun desember var það valið eitt af þeim 75 fyrirtækjum sem fær 340 milljóna styrk frá evrópska nýsköpunarráðinu (EIC). Sú styrkveitingin kemur með ásetningi um viðbótarfjárfestingu uppá um 370 milljónir króna frá EIC næsta vor.

Eftir þessa hlutafjáraukningu sem var leidd af ABC Venture ehf. eru hluthafar félagsins um 70 talsins.

„Þeir fyrstu sem komu inn sættu sig við það að skyggnið inn í framtíðina var slæmt. Síðan hefur verið gerð meiri krafa um skýrari sýn á það hvernig þeir munu á endanum geta losað um fjárfestinguna,“ segir stofnandinn og læknirinn Friðrik Rúnar Garðarsson í viðtali við Markaðinn í dag.

Magnús Kristinsson útgerðarmaður, Ólafur Björnsson, eigandi Dalsness, Ingi Guðjónsson, einn eigenda Lyfju, og Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, eigandi Súper1 eru á meðal hluthafa samkvæmt því sem fram kemur í Markaðnum í dag.

Félagið var stofnað árið 2014 af Friðriki Rúnari, sem komst í fréttirnar árið 2016 þegar honum var bjargað á rjúpnaveiðum. Friðrik Rúnar á stærstan hlut í fyrirtækinu.

Hefur félagið fengið um 1,1 milljarð króna í hlutafé og styrki frá stofnun að því er fram kemur í tilkynningu frá Epiendo.

ABC Venture ehf. er stýrt af Baldvini Valtýssyni og Ívari Guðjónssyni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×