Handbolti

Arnar Freyr í liði ársins í Svíþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson fer til GOG í sumar.
Arnar Freyr Arnarsson fer til GOG í sumar. Getty/Carsten Harz
Arnar Freyr Arnarsson, línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, var valinn í lið ársins í sænsku úrvalsdeildinni sem tilkynnt var í dag.

Arnar Freyr skoraði 71 mark í 32 leikjum fyrir stórlið Kristianstad sem mistókst að vinna Svíþjóðarmeistaratitilinn fimmta árið í röð en liðinu var sópað í sumarfrí í undanúrslitum gegn Alingsås.

Línumaðurinn stóri og stæðilegi úr Safamýrinni var að spila sína síðustu leiktíð fyrir Kristianstad en hann heldur í sumar til GOG í Danmörku þar sem hann verður samherji Óðins Þórs Ríkharðssonar og Viktors Gísla Hallgrímssonar en sá síðarnefndi er á leið í atvinnumennskuna frá Fram.

Arnar Freyr gekk í raðir Kristianstad frá Fram sumarið 2016 og hefur verið fastamaður í liðinu allar götur síðan. Hann vann Svíþjóðarmeistaratitilinn árið 2017 og 2018 og þá hefur hann spilað fjölmarga leiki fyrir liðið í Meistaradeildinni.

Hann er eini Íslendingurinn í úrvalsliðinu en Ólafur Guðmundsson, stórskytta Kristianstad, og markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson hafa einnig staðið sig vel á tímabilinu.

Ágúst Elí og félagar í Sävehof eru 1-0 yfir í úrslitaeinvíginu gegn Alingsås en liðin mætast öðru sinni á heimavelli Sävehof í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×