Erlent

Brúneiskum lögum um samkynhneigð mótmælt í London

Andri Eysteinsson skrifar
Dorchester hótelið er í eigu soldánsins af Brúnei.
Dorchester hótelið er í eigu soldánsins af Brúnei. Getty/ Chris J Ratcliffe
Tugir manna söfnuðust saman fyrir utan Dorchester hótelið sem er í eigu Hassanal Bolkiah soldáns Brúnei og mótmæltu þar lagabreytingum sem gerðar voru nýverið í landinu. Á dögunum tóku gildi íslömsk lög í smáríkinu og með þeim var dauðarefsing lögð við kynlífi samkynhneigðra í landinu. AP greinir frá.

Ýmsir þekktir aðilar hafa í kjölfarið hvatt til þess að hótel í eigu soldánsins verði sniðgengin, þar á meðal eru George og Amal Clooney, Elton John og Ellen DeGeneres. Mótmælendur flögguðu regnbogafána og sögðu Soldáninn eiga að skammast sín.

Oxford-háskólinn í Bretlandi hefur einnig gagnrýnt lagabreytinguna og íhugar nú að svipta soldáninn heiðursgráðu sem hann hlaut frá skólanum árið 1993. Þingmaðurinn Emily Thornberry í Verkamannaflokknum hefur einnig sagt að verði breytingin ekki afturkölluð ætti að „fleygja“ Brúnei út úr samstarfi Breska samveldisins.

Með nýju lögunum munu samkynhneigðir sem verða uppvísir um að stunda kynlíf, vera dæmdir til þess að verða grýttir til dauða eða að fá svipuhögg. Lögin munu gilda um alla þá sem staddir verða í Brúnei og skiptir engu hverrar trúar eða af hvaða þjóðerni þeir eru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×