Erlent

Kim heldur til fundar við Trump

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Æðsti leiðtogi Norður-Kóreu er á leið til Víetnam.
Æðsti leiðtogi Norður-Kóreu er á leið til Víetnam. Pyeongyang Press Corps/Getty
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, er haldinn til Hanoi, höfuðborgar Víetnam, þar sem leiðtogafundur hans og Donalds Trump kemur til með að fara fram á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu greina frá þessu.

Kim hélt fyrr í dag af stað til Víetnam með einkalest í sinni eigu. Með honum í för er Kim Yong Chol, háttsettur embættismaður innan norðurkóresku ríkisstjórnarinnar sem hefur gegnt lykilhlutverki í samskiptum við Bandaríkin, og Kim Yo Jong, systir leiðtogans. Áætlað er að lestarferð leiðtogans geti tekið meira en tvo daga.

Fundurinn í næstu viku verður annar fundur leiðtoganna tveggja en sá fyrri átti sér stað í Singapúr í júní. Sá endaði án eiginlegrar niðurstöðu varðandi kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga og leiddi til mánaðarlangrar pattstöðu í samningaviðræðum ríkjanna tveggja.

Vonir eru bundnar við að fundurinn sem fyrirhugaður er geti liðkað fyrir samskiptum ríkjanna en sjálfur hefur Kim sagst vona að með fundinum fái hann því framgengt að Bandaríkin aflétti sem mestu af viðskiptaþvingunum sínum gegn Norður-Kóreu og að ríki hans þurfi að gefa sem minnst eftir í kjarnorkustefnu sinni á sama tíma.

Þá hafa stjórnvöld í Víetnam sett á umferðarbann í grennd við þær leiðir sem Kim kann að koma í gegn um til landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×