Erlent

Líkti kynferðisofbeldi gegn börnum við mannfórnir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frans páfi.
Frans páfi. Vatíkanið/Getty

Frans páfi hefur heitið því að kaþólska kirkjan muni taka hart á hvers kyns kynferðisofbeldi gegn börnum sem viðgengist hefur innan kirkjunnar. Hann segir kynferðisbrotamenn innan klerkastéttarinnar vera „verkfæri djöfulsins“ og lofar því að kirkjan muni skoða hvert barnaníðsmál af fullri alvöru.

Páfinn hélt tölu í lok ráðstefnu rómansk-kaþólsku kirkjunnar gegn barnaníði þar sem þessi orð, meðal annarra, voru látin falla.

„Ég minnist þeirra grimmilegu trúarhátta sem eitt sinn voru við lýði víðs vegar í mörgum menningarsamfélögum, þar sem manneskjum var fórnað, og þá gjarnan börnum,“ sagði páfinn í ræðu sinni sem sló botninn í ráðstefnuna sem staðið hefur yfir síðastliðna fjóra daga.

„Grimmd þessa heimslæga verknaðar verður jafnvel enn alvarlegri og smánarlegri innan kirkjunnar, því hann fer þvert gegn því siðferðislega fordæmi og trúverðugleika sem kirkjan hefur. Hin heilaga persóna, kosin af Guði til þess að leiða sálir til frelsunar, gefur sig eigin breyskleika og sjúkdómi á vald, og verður þannig verkfæri djöfulsins,“ sagði páfinn í ræðunni.

Hann bætti þá við að fórnarlömb kynferðisofbeldis yrðu gerð að forgangsatriði innan kirkjunnar og lofaði að binda endi á hvers kyns yfirhylmingu með slíkum málum og að gerendur myndu fá að gjalda fyrir glæpi sína.

Páfinn sá sig þá einnig knúinn til þess að leggja áherslu á að kynferðisleg misnotkun á börnum væri „útbreitt fyrirbrigði í allri menningu og samfélögum.“


Tengdar fréttir

Páfinn veitir leyfi fyrir rannsókn á kynlífshneyksli

Frans páfi hefur gefið leyfi fyrir "ítarlegri rannsókn“ á skjölum Vatíkansins, en henni er ætlað að varpa ljósi á hvernig Theodore McCarrick, háttsettum bandarískum kardinála, tókst að klífa metorðastiga kaþólsku kirkjunnar þrátt fyrir ítrekaðar ásakanir á hendur honum um að hafa þrýst á guðfræðistúdenta og unga presta til þess að sofa hjá sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×