Innlent

Ekki farið að öllum verklagsreglum í kynferðisbrotamáli fatlaðrar konu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ekki var farið að öllum verklagsreglum þegar skýrsla var tekin af ungri fatlaðri konu eftir að grunur vaknaði um að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi af starfsmanni á skammtímaheimili á vegum Reykjavíkurborgar. Sviðsstjóri Velferðarsviðs borgarinnar harmar málið sem sé litið mjög alvarlegum augum.

Á dögunum greindum við frá því að starfsmaður á skammtímaheimili fyrir fötluð börn og ungt fólk á vegum Reykjavíkurborgar væri til rannsóknar hjá lögreglu, grunaður um kynferðisbrot gegn ungri konur sem dvaldi á heimilinu. Meint atvik á að hafa gerst þegar starfsmaðurinn baðaði konuna en hún er flogaveik og með þroskaskerðingu.

Móðir konunnar sagði í fréttum okkar í gær að hún væri ósátt við vinnubrögð borgarinnar í málinu. Dóttir hennar hafi verið boðuð í skýrslutöku hjá borginni sem hafi verið staðið ófagmannalega að og ekki tekið tillit til fötlunarinnar. 

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, harmar það og segir að ákveðnum ferlum sé fylgt í málum þar sem grunur leikur á að brotið hafi verið gegn fötluðu fólki. 

„Nú í þessu máli þá er farið eftir verklagsreglum nema, og mér þykir það mjög miður, að réttagæslumaður var ekki kallaður til.“ „En ég er hugsi eftir að þetta mál kom upp hvort að við þurfum ekki að fá ákveðna lagabreytingu og setja upp starfsemi sem er svipuð og barnahús varðandi fatlaða einstaklinga,“ segir Regína en í barnaverndarmálum eru kynferðisbrot strax tilkynnt til lögreglu. 

Hún sé sammála móðurinni um að það sé öruggari leið að lögregla taki fyrsta viðtalið til að fá réttustu myndina af atburðarásinni. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×