Innlent

Gunnar Smári hvetur fólk til þess að afþakka Fréttablaðið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Smári Egilsson vill ekki sjá Fréttablaðið og er ósáttur við forsíðufrétt blaðsins í dag.
Gunnar Smári Egilsson vill ekki sjá Fréttablaðið og er ósáttur við forsíðufrétt blaðsins í dag.
Gunnar Smári Egilsson, sem kom að stofnun Fréttablaðsins og er einn af stofnendum Sósíalistaflokksins, hvetur fólk til þess að afþakka blaðið sem hann ritstýrði um árabil.

Þetta kemur fram í skrifum hans á Miðjunni en tilefni skrifa Gunnars Smára er forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.

Þar var fjallað um kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins undir fyrirsögninni Brestur í blokkinni?

Haft var heimildarmönnum blaðsins að félögin fjögur hefðu of ólíka hagsmuni til að geta klárað viðræðurnar í samfloti en Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, vísaði þessu algjörlega á bug í samtali við blaðið.

Gunnar Smári segir að fólk eigi ekki að taka mark á fréttinni „í ljósi sextíu leiðara Fréttablaðsins gegn kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar,“ eins og hann orðar það en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur meðal annars gagnrýnt leiðaraskrif Fréttablaðsins og sagt að þar birtist „sjúk og viðbjóðsleg umræða.“

Gunnar Smári segir að forsíðufréttin í dag sé „merki þess að Fréttablaðið  notað með öllum tiltækum ráðum gegn baráttu almennings fyrir skaplegum kjörum og einhverju réttlæti í innan alræðis auðvaldsins. Skammarlegt blað Fréttablaðið núorðið, þetta fyrrum alþýðlega blað.

Það eru margir mánuðir síðan ég afþakkaði að fá þetta drasl inn á mitt heimili. Og tók ég þó þátt í að stofna blaðið og fylgdi því þar til það var orðið stórt og glæsilegt, með sterkustu ritstjórn sem hér hefur starfað.

En blaðið sem gefið er út í dag minnir mig á engan hátt á þann tíma, bara ekki neitt. Ég hvet fólk til að afþakka Fréttablaðið, til hvers ætti fólk að opna heimili sitt fyrir svívirðilegum áróðri gegn lífsbaráttu sinni?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×