Erlent

Gagnrýnir „ógeðslega“ íhaldssama fjölmiðla vegna falsaðrar nektarmyndar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. Getty/Scott Eisen
Alexandria Ocasio-Cortez þingkona demókrataflokksins vandar íhaldssömum fjölmiðlum ekki kveðjurnar eftir að hægrimiðillinn The Daily Caller birti falsaða nektarmynd af henni.

Myndin var birt á vef The Daily Caller á mánudag með fyrirsögninni „Hér er myndin sem einhverjir segja að sé nektarsjálfsmynd af Alexandriu Ocasio-Cortez“. Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir að myndin hafi verið í umferð á Internetinu í nokkurn tíma áður en hún var birt á vef The Daily Caller, og þá hafi þegar verið afsannað að konan á myndinni væri Ocasio-Cortez.

Ocasio-Cortez gagnrýndi „fréttaflutning“ miðilsins í Twitter-færslum sem hún birti í gær. Þar sagði hún að myndbirting á borð við þessa, og það í stórum íhaldssömum fjölmiðli, sýndi skýrt að konur í leiðtogastöðum ættu á brattann að sækja miðað við starfsbræður sína.

Þá gagnrýndi Ocasio-Cortez einnig fréttamann götublaðsins The Daily Mail fyrir að hafa heimsótt ættingja kærasta síns og boðið þeim peningagreiðslu í skiptum fyrir „fréttir“.

Þá gagnrýndi hún framferði íhaldssömu miðlanna enn frekar vegna myndbirtingarinnar og sagði það „algjörlega ógeðslegt“.

Ocasio-Cortez, yngsta konan sem tekið hefur sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hefur orðið ein skærasta vonarstjarna demókrataflokksins á skömmum tíma. Hún þykir afar vinstrisinnuð á bandarískan mælikvarð og hefur verið undir smjásjá repúblikana um nokkurt skeið.

Í síðustu viku var greint frá því að bandarískir hægrimenn hefðu deilt myndbandi á samfélagsmiðlum í tilraun til að lítillækka Ocasio-Cortez. Myndbandið sýndi þingkonuna dansa á húsþaki á háskólaárum sínum. Skemmst er frá því að segja að smánunartilraun hægrimanna misheppnaðist en samfélagsmiðlanotendur tóku almennt afar vel í myndbandið, sem og svar Ocasio-Cortez við því.


Tengdar fréttir

„Engin spurning“ að Trump sé rasisti að mati þingmannsins unga

Alexandria Ocasio-Cortez, nýr þingmaður Demókrata og ein helsta vonarstjarna flokksins segir að það sé "engin spurning“ að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sé rasisti. Þetta kom fram í viðtali Ocasio-Cortez í 60 mínútum sem birt var í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×