Innlent

Sveitarstjórn frestaði ákvörðun um veglínu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sveitarstjórn Reykhólahrepps frestaði nú síðdegis ákvörðun um leiðarval fyrir framtíðarvegstæði Vestfjarðavegar. Ráðamenn hreppsins vilja funda með samgönguráðherra áður en þetta eldheita mál verður afgreitt. 

Mikill titringur er meðal Vestfirðinga vegna yfirvofandi ákvörðunar hreppsnefndarinnar, en þar stendur valið milli ÞH-leiðar um Teigsskóg og R-leiðar yfir mynni Þorskafjarðar. Ráðamenn annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum óttast að val á R-leiðinni þýði verulegar tafir á framkvæmdum og fóru því á fund með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í byrjun ársins og þangað mættu einnig fulltrúar Reykhólahrepps.

 

Hér má sjá leiðirnar tvær sem nú er tekist á um fyrir framtíðarlegu Vestfjarðavegar. Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Leið R færi um Reykhóla.Grafík/Hlynur Magnússon.
Oddvitinn, Ingimar Ingimarsson, hefur ekki leynt því að hann vilji R-leiðina og fyrir helgi samþykkti skipulagsnefnd hreppsins með tveimur atkvæðum gegn einu að mæla með því að hún yrði sett á aðalskipulag. Undirskriftalisti, sem afhentur var sveitarstjóra á mánudag, sýnir hins vegar mikla andstöðu innan hreppsins gegn R-leiðinni en til stóð að sveitarstjórnin afgreiddi málið á fundi síðdegis í dag. 

Þeirri ákvörðun var hins vegar frestað og segir Tryggvi Harðarson sveitarstjóri ástæðuna þá að sveitarstjórnin vilji funda með samgönguráðherra áður. Stefnt er að því að sá fundur verði á mánudag og að sveitarstjórn taki svo sína ákvörðun næstkomandi þriðjudag.


Tengdar fréttir

Afhentu undirskriftir gegn R-leið um Reykhólahrepp

Sveitarstjóra Reykhólahrepps var í morgun afhentur undirskriftalisti 95 einstaklinga þar sem mótmælt er að svokölluð R-leið verði valin fyrir framtíðarvegstæði Vestfjarðavegar. Aðstandendur undirskriftanna telja að meirihluti íbúa hreppsins sé andvígur R-leiðinni.

R-leið um Reyk­hóla féll á um­ferðar­öryggis­mati

Svokölluð R-leið, með stórbrú þvert yfir Þorskafjörð, sem sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur stefnt að, féll á nýju umferðaröryggismati og þyrfti fjögurra milljarða króna kostnaðarauka til að hún teldist hæf til að bera Vestfjarðaumferðina.

Oddviti segir Vegagerðina hafa fengið rauða spjaldið

Oddviti Reykhólahrepps segir Vegagerðina sjálfa falla á umferðaröryggisprófi. Tilefnið er sú niðurstaða Vegagerðarinnar að svokölluð R-leið um Reykhóla standist ekki umferðaröryggismat.

Fjárveitingar miða við leiðarval um Teigsskóg

Fjárveitingar í samgönguáætlun til Vestfjarðavegar miða við leið um Teigsskóg, sem er fullfjármögnuð, og að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Ákvörðun um aðra leið er sögð þýða margra ára töf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×