Innlent

Formaður Eflingar les Sirrý pistilinn: „Þessi fyrirlitlega manneskja ásakar mig um óheiðarleika og glæpaeðli“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lætur Sirrý Halllgrímsdóttur heyra það í pistli sem hún skrifaði á Facebooksíðu sína í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lætur Sirrý Halllgrímsdóttur heyra það í pistli sem hún skrifaði á Facebooksíðu sína í dag. Vísir/Vilhelm
„Enn og aftur er viðbjóðslegur áróður um mig og Eflingu borinn inn á heimili fólks með Fréttablaðinu.“

Á þessum orðum hefst pistill Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um bakþankapistil Sirrýjar Hallgrímsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns Illuga Gunnarssonar sem nefnist „Byltingin étur“, og birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í bakþankapistli Sirrýjar sendi hún nýrri forystu verkalýðshreyfingarinnar tóninn og sakaði hana um að vera bæði ókurteis og að vinna á móti þeim sem verst hafa það því hún telji að þær launahækkanir sem verkalýðshreyfingin fer fram á leiði til verðbólgu. Þá sagði hún að Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, sé andlegur leiðtogi nýrrar forystu verkalýðshreyfingarinnar. 

„Nú er Gunnar Smári búinn að finna nýjan sjóð, verkalýðsfélagið Efling situr á 12 milljörðum sem nýta má til ýmissa verka. Það þurfti bara að senda gjaldkerann í veikindaleyfi, hún virtist ekki skilja fínni blæbrigði byltingarinnar,“ skrifaði Sirrý.

Segir Sirrý hafa sakað sig um þjófnað

Sólveig Anna segir að af skrifum Sirrýjar mætti greina alvarlegar ásakanir:



„Í raun er hún að ásaka mig um þjófnað; að hin raunverulega ástæða fyrir því að ég hafi gefið kost á mér sem formaður Eflingar hafi verið til að svíkja og pretta og stela. Það er ótrúlegt að þurfa að sitja undir uppspuna og deleríngum í fólki með skerta siðferðiskennd, en ég segi aftur: Hér fáum við ótrúlegt tækifæri til að upplifa hvernig borgarastéttin tjúllast þegar að henni er sótt og þegar fólk ákveður að hætta að bugta sig og beygja fyrir mannfjandsamlegum efnahagslögmálum hennar.“

Sirry Hallgrímsdóttir skrifaði bakþankapistil sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Hún segir að í bakþankapistlinum opinberist allt í senn viljinn til að ljúga, hræða og til að leita allra leiða til að „sabótera“ baráttu fólks fyrir efnahagslegu réttlæti.

 

Segir Sirrý etja saman tveimur stéttum

Þá þykir Sólveigu ekki fínt að etja saman stétt verka-og láglaunafólks og háskólamenntaðra en í bakþankapistli Sirrýjar stakk hún upp á því að fréttamenn krefji ljósmæður svara um það hvort þær séu sáttar við að menntun þeirra sé ekki metin til launa.



Sólveig segir að þetta sé aumkunarvert skítkast: „Ljósmæður, eins og annað eðlilegt fólk með eðlilega siðferðiskennd í íslensku samfélagi, munu standa með okkur í baráttunni. Af því að þær, eins og allt eðlilega innréttað fólk, gera sér grein fyrir því að gott og mannvænt samfélag byggist upp á því að fólk hafi það gott, að fólk lifi við öryggi, að fólk sleppi við vinnu-þrælkun...“

 

Furðaði sig á tilgangi pistilsins

„Í alvöru talað: Hvernig dirfist þessi kona að reyna að ata mig aur? Hvernig dirfist hún að reyna að hræða fólk sem starfar á íslenskum vinnumarkaði til hlýðni? Hvernig dirfist hún að reyna að láta eins og ég hafi gerst sek um einhvern glæp?“

Sólveig veltir fyrir sér svari við eigin spurningu:

„Sennilegasta útskýringin er sú að í þeirri veröld sem hún byggir, þeirri veröld sem félagar hennar byggja þykir ekkert sjálfsagðara en að ásælast sjóði og gera hvað sem er til að komast að þeim. Í þeirri veröld þykir ekkert sjálfsagðara en að láta fégræðgina stýra öllum sínum gjörðum. 

Í þeirri veröld þykir ekkert tiltökumál að stunda fyrirtækjagripdeildir, skattsvik, fjárplógsstarfsemi og síðast en ekki síst þykir í þeirri veröld ekkert sjálfsagðar en að kokka upp eitt stórfenglegasta bankahrun mannkynssögunnar með einbeittum brotavilja og einbeittu skeytingarleysi fyrir hagsmunum almennings.“

Sólveig sendi Herði Ægissyni, ritstjóra Markaðarins, viðskiptablaði Fréttablaðsins, einnig tóninn fyrir að hafa sagt hina nýju forystu verkalýðshreyfingarinnar hafa í frammi sturlaðar kröfur fyrir komandi kjarabaráttu. Þetta sagði hann í leiðarapistli undir yfirskriftinni „Stærsta ógnin“.


Tengdar fréttir

Bylting étur

Andlegur leiðtogi þessarar hreyfingar virðist vera Gunnar Smári Egilsson sem áður hafði nokkuð óhindraðan aðgang að sjóðum auðmanna. Nú er Gunnar Smári búinn að finna nýjan sjóð, verkalýðsfélagið Efling situr á 12 milljörðum sem nýta má til ýmissa verka. Það þurfti bara að senda gjaldkerann í veikindaleyfi, hún virtist ekki skilja fínni blæbrigði byltingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×