Menning

Ópera um alla Reykjavík

Guja Sandholt og Ása Fanney Gestsdóttir söngkonur og stjórnendur Óperudaga.
Guja Sandholt og Ása Fanney Gestsdóttir söngkonur og stjórnendur Óperudaga. Fréttablaðið/Eyþór
Þær Ása Fanney Gestsdóttir og Guja Sandholt óperusöngvarar eru listrænir stjórnendur Óperudaga í Reykjavík og hafa veg og vanda af viðamikilli og fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar.

Ása Fanney bjó og starfaði við góðan orðstír sem mezzósópransöngkona í Þýskalandi í tólf ár áður en hún flutti heim til Íslands. Hún hefur starfað við söng og sjálfstætt undanfarin ár við ýmis verkefni í menningarlífinu. Guja Sandholt býr bæði í Reykjavík og Amsterdam og starfar eins og Ása bæði að skipulagningu menningarviðburða og sem söngkona. Um þessar mundir syngur hún til dæmis stundum hlutverk Juliu Child í Bon Appétit!

Ása Fanney og Guja hafa staðið í ströngum undirbúningi vegna hátíðarinnar í rúmt ár. Þetta er í annað skipti sem hátíðin er haldin en árið 2016 var hún haldin í Kópavogi.

Guja: „Við ætlum að breyta Reykjavík í óperu-, leik- og söngsvið í tvær vikur og það verða alls kyns mismunandi söngviðburðir í gangi fyrir fólk á öllum aldri.

Við verðum úti um alla Reykjavík. Til dæmis í Safnahúsinu, Hörpu, Árbæjarlaug og Gerðubergi. Þá verða skipulagðar heimsóknir í skóla tengdar hátíðinni. Við létum semja óperu fyrir börn. Hún heitir Plast­óperan og er eftir Gísla Jóhann Grétarsson. Árni Kristjánsson sem hefur mikið unnið með börnum og kennt þeim leiklist gerði skemmtilegt handrit sem fjallar um þetta málefni; umhverfisvernd og plast. Hann kemur skilaboðunum áfram án þess að vera að benda með fingrinum. Mjög skemmtilegt og eitthvað sem bæði börn og fullorðnir geta haft gaman af. Plastóperan verður sýnd í Safnahúsinu sunnudaginn 21. október og aðgangur verður ókeypis.“

Markmið þeirra með hátíðinni er að kynna betur óperu og klassískan söng fyrir Íslendingum.

Ása Fanney: „Við viljum stækka áhorfendahóp óperunnar og bjóða upp á viðburði sem eru ekki eins formfastir og stórir og fólk kannski þekkir eða heldur að ópera sé alltaf. Þetta eru margir stuttir viðburðir og aðgengilegir. En svo verða líka hefðbundin verk á borð við Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson í Hörpu. Við nutum þess að fá veglega styrki úr norrænum sjóðum þannig að hingað eru að koma nokkuð margir norrænir þátttakendur.“

Bæði Ása Fanney og Guja syngja á hátíðinni. Ása Fanney syngur á móti Aroni Axel Cortes í Trouble in Tahiti. Guja gengur til liðs við Barokkbandið Brák ásamt Hrafnhildi Árnadóttur Hafstað í Fríkirkjunni og syngur Händel.

Ása Fanney: „Markmiðið með hátíðinni er líka að búa til nýjan starfsvettvang fyrir söngvara og vekja athygli á þeim mikla mannauði sem við búum yfir.

Guja: Margir óperusöngvarar flytja út og festast svo þar. Það þarf meiri grósku í óperusenuna á Íslandi og við viljum stuðla að því. Íslendingum gefst á hátíðinni færi á að hlusta á ýmsa framúrskarandi íslenska söngvara og núna um helgina koma bæði Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari fram á einsöngstónleikum í Hannesarholti. Bjarni Thor tekur einmitt um þessar mundir þátt í uppsetningu á Niflungahrings Wagners í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×