Viðskipti innlent

Klósettferðir fjármagni framkvæmdir á Hvolsvelli

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þjónustustöð N1 á Hvolsvelli.
Þjónustustöð N1 á Hvolsvelli. Google maps
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort að N1 muni hefja frekari gjaldtöku við salerni á þjónustumiðstöðvum sínum. Greint var frá því í gær að fljótlega verður tekinn upp rafrænn aðgangur að salernum N1 í Borgarnesi og þá er verið að koma upp sambærilegum gjaldtökubúnaði á þjónustustöð N1 á Hvolsvelli.

Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsssviðs hjá N1, segir fyrirtækið vona að viðskiptavinir sýni þessum breytingum skilning. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um frekari gjaldtöku en á fyrrnefndu stöðvunum tveimur.

Hún segir að upphaflega hafi staðið til að prófa gjaldtökubúnaðinn eingöngu í Borgarnesi, sem er stærsta stöð N1. Ætlunin með gjaldtökunni sé að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af hundruð þúsunda klósettferða á ári.

Fyrirtækið hafi síðan tekið ákvörðun um það „nýlega“ að taka einnig upp rafrænan aðgang að salernum N1 á Hvolsvelli að sögn Guðnýjar. Það hafi N1 gert vegna þess að ráðast þurfti í „stórar framkvæmdir“ og „miklar endurbætur“ á salernum stöðvarinnar, sem nú standa yfir.

N1 hafi talið mikilvægt að taka betur á móti þeim mikla fjölda ferðamanna sem á leið um stöðina, ekki síst með því að stækka salernisaðstöðuna. Langar raðir myndist reglulega við salernin og því hafi N1 talið nauðsynlegt að „fjölga verulega salernum.“ Þá vonast Guðný einnig til þess að gjaldtakan standi straum af breytingum sem N1 ræðst í til að bæta þjónustu við starfsmenn ferðaþjónustunnar, svo sem bílstjóra og fararstjóra, sem leggja leið sína um Suðurland.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×