Erlent

Bílstjóri eðalvagnsins hafði ekki tilskilin ökuréttindi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kærustuparið Amanda Halse og Patrick Cushing voru á meðal þeirra tuttugu sem létust í slysinu í New York í gær.
Kærustuparið Amanda Halse og Patrick Cushing voru á meðal þeirra tuttugu sem létust í slysinu í New York í gær. Vísir/AP
Eðalvagn, sem ekið var á kyrrstæðan bíl í New York-ríki í gær með þeim afleiðingum að tuttugu létust, stóðst ekki öryggisprófanir og hefði ekki átt að vera í umferð, að sögn Andrews Cuomo, ríkisstjóra New York. Þá hafði bílstjóri bifreiðarinnar ekki tilskilin réttindi til að aka henni.

Slysið varð með þeim hætti að eðalvagninum var ekið á kyrrstæðan bíl við verslun vestan við Albany í New York. Tuttugu létust í slysinu, þar af voru átján í bifreiðinni. Tveir létu lífið er þeir urðu fyrir bílnum á bílastæði við verslunina. Í eðalvagninum voru m.a. tvenn nýgift hjón og fjórar systur. Fólkið var á aldrinum 30-35 ára og var á leið í afmælisveislu yngstu systurinnar.

Cuomo sagði á blaðamannafundi í dag að eðalvagninn hefði hlotið falleinkunn í öryggisprófunum í september. Bílstjórinn hafi jafnframt ekki haft tilskilið leyfi til að aka eðalvagninum með farþega. Þá tjáði Cuomo blaðamönnum að yfirvöld hygðust fara fram á vinnustöðvun á hendur fyrirtækinu Prestige Limo, sem gerði út umræddan eðalvagn, þangað til rannsókn á slysinu lyki.

Á meðal hinna látnu eru hjónin Amy og Axel Steenburg sem gengu í það heilaga í júní síðastliðnum. Farþegar í eðalvagninum voru að halda upp á þrítugsafmæli Amy þegar slysið varð. Þrjár systur Amy; Abigail, Mary og Allison, létust einnig. Þá létust hjónin Erin og Shane McGowan, sem einnig giftu sig í júní, í slysinu. Frekari umfjöllun um hina látnu má nálgast á vef BBC.

Greint var frá því í dag að íbúar á svæðinu þar sem slysið varð hafi lengi kvartað yfir veginum við slysstað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×