Innlent

Telja að hjálmur hefði bjargað lífi ítalska hjólreiðamannsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll.
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll. Loftmyndir ehf.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur líkur á að hjálmur hefði bjargað lífi ítalsks ferðamanns sem lést eftir að hann féll af hjóli sínu á Nesjavallavegi í maí á síðasta ári. Nefndin beinir því til Samgönguráðuneytisins að endurskoða reglur með tilliti til hjálmaskyldu fyrir allt hjólreiðafólk.

Engin vitni urðu að slysinu og komu vegfarendur að manninum þar sem hann lá meðvitundarlaus á jörðinni við hjólið, neðst í brekkunni vestan við Dyrafjöll. Útilokaði lögregla að keyrt hafi verið á manninn þar sem enginn ummerki fundust á vettvangi eða á hjólinu um árekstur.

Telur rannsóknarnefndin að maðurinn hafi misst vald á hjólinu á töluverðum hraða niður brekkuna með þeim afleiðingum að hann hafi fallið fram fyrir og lent með höfuðið á veginum. Lést hann af völdum höfuðáverka og var maðurinn ekki með hjálm. Að mati nefndarinnar eru líkur á að maðurinn hefði lifað slysið af hefði hann verið með hjálm.

Í skýrslu nefndarinnar um slysið segir að um það bil 70 til 75 prósent banaslysa hjólreiðamanna séu af völdum höfuðáverka. Hvetur nefndin hjólreiðamenn til þess að nota hjálm auk þess sem að því er beint til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglur með tilliti til hjálmaskyldu fyrir allt hjólreiðafólk.

Skýrslu nefndarinnar má lesa hér.


Tengdar fréttir

Ítalskur ferðamaður á reiðhjóli lést

Ítalskur ferðamaður á þrítugsaldri, sem fannst meðvitundarlaus á Nesjavallavegi eftir miðjan dag í gær, hefur verið úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×