Fótbolti

Upplifir enga ógn þrátt fyrir stólakast og óvinveitta heimsókn

Tómas Þór Þórðarson í St. Gallen skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik á móti Mexíkó í byrjun árs.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik á móti Mexíkó í byrjun árs. vísir/getty
Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, nýtur lífsins í Sofiu í Búlgaríu þar sem að hann spilar með sínu félagsliði, Levski Sofia.

Liðið er í bullandi gír í baráttunni um Búlgaríumeistaratitilinn og Hólmar lykilmaður eftir komuna frá Rosenborg þar sem að hann var einn besti varnarmaður norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég hef það mjög fínt. Við erum á toppnum núna og hlutirnir eru að falla með okkur. Það er bara spurning um að halda þessu áfram en eins og í öðrum deildum er umspil í lokin þar sem að allt getur gerst. Þetta lítur vel út. Við erum búnir að styrkja liðið vel og vonumst til að verða meistarar,“ segir Hólmar.

vísir/getty

Skilur pirringinn

Hann var á mála hjá West Ham en bjó svo í Noregi lengi áður en að hann flutti til Búlgaríu þar sem lífið er öðruvísi en hann segist fljótur að aðlgast.

„Það tók ekki langan tíma. Lífið er ljúft þarna. Konunni og stelpunni líður vel. Umhverfið er flott og borgin er góð og öllum líður vel,“ segir hann.

Þrátt fyrir gott gengi Levski Sofia þessa dagana fór liðið illa að ráði sínu í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem að Sofiu-menn duttu út í tveggja leikja einvígi á móti Vaduz frá smáríkinu Lichtenstein.

Stuðningsmenn Levski Sofia höfðu nákvæmlega engan húmor fyrir þeim úrslitum og trylltust í leikslok. Þeir rifu upp sæti í stúkunni og grýttu inn á völlinn ásamt öðrum lausamunum sem að þeir fundu.

„Maður skilur þennan pirring upp að vissu marki. Okkur var kastað inn í klefa fljótlega og svo kom fjölskyldan yfir. Við þurftum að bíða á bílastæðinu í einhverja tvo tíma eftir að komast heim. Þetta er bara búið núna og þeir orðnir sáttir við okkur núna enda erum við á toppnum á deildinni,“ segir Hólmar en bullinu lauk ekki þarna.

„Þeir mættu á æfingasvæðið daginn eftir en hvað mig varðar hefur þetta verið mest jákvætt. Ég hef ekki upplifað neina ógn sem stafar af þeim. Okkur líður bara mjög vel þarna,“ segir Hólmar Örn Eyjólfsson.


Tengdar fréttir

Emil spilar ekki á morgun

Erik Hamrén landsliðsþjálfari staðfesti á blaðamannafundi landsliðsins í Sviss í morgun að Emil Hallfreðsson muni ekki spila með liðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×