Fótbolti

Líklegt byrjunarlið Íslands: Úr kuldanum hjá Heimi og beint í liðið hjá Hamrén

Tómas Þórðarson í St. Gallen skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson fær nýtt líf með íslenska landsliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson fær nýtt líf með íslenska landsliðinu. vísir/getty
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, hefur ekki verið í neinum feluleik í þessari fyrstu æfingaviku íslenska landsliðsins undir hans stjórn.

Hann hefur leyft íslenskum blaðamönnum að fylgjast með öllum æfingum liðsins frá upphafi til enda og meira að segja sagt frá hugmyndum sínum um að spila með þriggja manna varnarlínu fyrr en síðar.

Það virðist nokkuð ljóst hvernig fyrsta byrjunarlið Hamréns verður þegar að Ísland mætir Sviss í fyrsta leik Þjóðadeildarinnar klukkan 16.00 á morgun í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Sama liðinu hefur verið stillt upp í spili og taktík á æfingum en Hamrén er auðvitað án fjögurra af bestu leikmönnum Íslands. Aron Einar, Alfreð, Jóhann Berg og Emil Hallfreðsson eru allir frá vegna meiðsla. Emil er með hópnum en ekki klár í slaginn á morgun.

Guðlaugur Victor spilaði vel í Kína en fékk aldrei tækifæri aftur.vísir/getty

4-4-2

Hannes heldur stöðu sinni í markinu og Birkir að sjálfsögðu í hægri bakverði. Sverrir Ingi hefur nú tekið formlega við af Kára Árnasyni og verður við hlið Ragnars Sigurðssonar og þá virðist sem að Ari Freyr Skúlason sé búinn að taka stöðu sína aftur af Herði Björgvin Magnússyni.

Hörður hefur reyndar verið tæpur í vikunni og því mögulegt að hann haldi stöðu sinni þar sem að hann er klár. Líklegra er þó að Ari Freyr fái aftur tækifæri undir stjórn nýs þjálfara.

Hamrén spilar líklega 4-4-2 á morgun með Jón Daða og Björn Bergmann frammi miðað við uppstillinguna á æfingum í vikunni, Rúrik og Birkir eru á köntunum og Gylfi Þór Sigurðsson, fyrirliði inn á miðjunni.

Við hlið hans á miðjunni er kannski það óvæntasta í þessu öllu saman. Það lítur allt út fyrir það að Guðlaugur Victor Pálsson, fyrirliði bikarmeistara FC Zürich, verði í byrjunarliðinu. Victor fékk fá tækifæri hjá forverum Erik Hamrén.

Síðast spilaði Guðlaugur Victor tvo landsleiki á æfingamóti í Kína í janúar 2017 þar sem að strákar sem að spila á Íslandi og á Norðurlöndum fengu tækifæri. Victor stóð sig með prýði þar en sást svo ekki aftur á meðan að Heimir Hallgrímsson stýrði liðinu.

Eftir tvö ár í burtu alveg fær Victor líklega séns í byrjunarliðinu.vísri/getty

Svekktur en nú sáttur

Þrátt fyrir að spila vel fyrir Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni og vera þar fyrirliði og fara svo til FC Zürich og leiða liðið að bikarmeistartitlinum spilaði Guðlaugur Victor aðeins þessa tvo leiki frá 2015 og þar til dagsins í dag.

Miðjumaðurinn var ekki í 26 manna hóp sem fór til Katar fyrir áramót og ekki í 29 manna hóp sem fór til Bandaríkjanna í mars. Þá var hann ekki einu sinni í stóra 35-manna HM-hópnum sem Heimir valdi fyrir HM 2018 í Rússlandi.

„Að sjálfsögðu er landsliðið eitthvað sem ég hef hugsað til. En þetta er undir einum manni komið. Hann tekur ákvarðanir og það er ekkert meira um það að segja,“ sagði Victor í viðtali við Fréttablaðið eftir að verða bikarmeistari en nú fær hann annan séns.

„Ég er fyrst og fremst mjög ánægður með að vera kominn aftur. Ég er búinn að leggja mjög hart að mér að koma aftur inn í þennan hóp. Núna hef ég fengið tækifærið,“ sagði hann við Vísi í vikunni.

Það eru þrjú ár síðan að Guðlaugur Victor var síðast í hóp í mótsleik en nú fær þessi 27 ára gamli miðjumaður gullið tækifæri vegna meiðsla lykilmanna að sanna sig og tryggja sér fast sæti í hópnum á næstu árum.

Líklegt byrjunarlið Íslands (4-4-2): Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason, Ari Freyr Skúlason - Rúrik Gíslason, Gylfi Þór Sigurðsson, Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason - Jón Daði Böðvarsson, Björn Bergmann Sigurðarson.


Tengdar fréttir

Emil spilar ekki á morgun

Erik Hamrén landsliðsþjálfari staðfesti á blaðamannafundi landsliðsins í Sviss í morgun að Emil Hallfreðsson muni ekki spila með liðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×