Fótbolti

Svekktur að vera ekki í landsliðinu: „Þetta er undir einum manni komið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson spilaði síðast fyrir landsliðið í janúar 2017.
Guðlaugur Victor Pálsson spilaði síðast fyrir landsliðið í janúar 2017. vísir/getty
Guðlaugur Victor Pálsson varð um helgina svissneskur bikarmeistari í fótbolta með liði sínu FC Zürich en hann er fyrsti Íslendingurinn sem leiðir sitt lið til bikarmeistaratitils síðan Stefán Gíslason gerði það með Bröndby árið 2008.

Victor hefur spilað vel með Zürich-liðinu á tímabilinu var gerður að fyrirliða á fyrsta ári en þrátt fyrir góða frammistöðu hefur hann ekki hlotið náð fyrir augum Heimis Hallgrímssonar, landsliðsþjálfara.

Miðjumaðurinn var ekki í 26 manna hóp sem fór til Katar fyrir áramót og ekki í 29 manna hóp sem fór til Bandaríkjanna í mars. Þá er hann ekki í stóra 35-manna HM-hópnum sem Heimir valdi fyrir HM 2018 í Rússlandi.

Hann ræðir þessi mál stuttlega í viðtali í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann segist lítið vilja tjá sig um stöðu sína er varðar landsliðið. Augljóst er að Victor er nokkuð svekktur með að fá engin tækifæri.

„Ég vil sem minnst tala um landsliðið. Auðvitað hefur það samt verið á bak við eyrað hjá manni í vetur. Ég er búinn að spila mjög gott tímabil, vera fyrirliði og núna bikarmeistari,“ segir Victor en bendir á að Heimir Hallgrímsson einn ræður þessu.

„Að sjálfsögðu er landsliðið eitthvað sem ég hef hugsað til. En þetta er undir einum manni komið. Hann tekur ákvarðanir og það er ekkert meira um það að segja,“ segir Guðlaugur Victor Pálsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×