Erlent

Hvatti Breta til að hætta að styðja kjarnorkusamninginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Woody Johnson, sendiherra Bandaríkjanna á Bretlandi.
Woody Johnson, sendiherra Bandaríkjanna á Bretlandi. Vísir/EPA
Sendiherra Bandaríkjanna á Bretlandi hvatti bresk stjórnvöld til þess að hætta stuðningi sínum við kjarnorkusamning heimsveldanna við Íran frá árinu 2015. Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr samningnum í maí.

Evrópuríki hafa staðið við samninginn þrátt fyrir brotthvarf Bandaríkjanna. Bretar hafa ásamt Frökkum og Þjóðverjum reynt að að halda lífi í samningnum undanfarna mánuði.

Woody Johnson, sendiherra Bandaríkjanna, skrifaði grein í Sunday Telegraph í dag þar sem hann gagnrýndi írönsk stjórnvöld fyrir að fjármagna „staðgöngustríð og illa innrættar aðgerðir“. Þau þyrftu að gera breytingar og haga sér eins og „venjulegt“ land.

„Þangað til þá ætla Bandaríkin að auka þrýstinginn og við viljum Bretland við hlið okkar,“ skrifar Johnson og óskar eftir stuðningi Breta.

Reuters-fréttastofan segir að breska utanríkisráðuneytið hafi vísað á ummæli Alistair Burt, ráðherra málefna Mið-Austurlanda, þegar það var spurt út í grein bandaríska sendiherrans.

Burt hafnaði því að Bretar myndu fylgja Bandaríkjamönnum út úr samkomulaginu í síðustu viku. Ríkisstjórnin væri þó opin fyrir því að ræða við bandarísk stjórnvöld um áhyggjur þeirra af Íran.


Tengdar fréttir

Refsiaðgerðir gegn Íran taka gildi í nótt

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggst fylgja eftir refsiaðgerðum gegn Íran, eftir að Bandaríkin drógu sig úr alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi í vor sem undirritað var árið 2015 en það var í stjórnartíð Baracks Obama.

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×