Erlent

Hjúkrunarkona eitraði fyrir tugum sjúklinga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Konan
Konan Vísir/getty
Fyrrverandi hjúkrunarkona í Japan hefur játað að hafa átt þátt í því að tugir sjúklinga urðu fyrir eitrun á síðustu tveimur árum. Lögregla telur að andlát allt að tuttugu sjúklinga megi rekja til eitrunarinnar. Hjúkrunarkonan, Ayumi Kuboki, sem er liðlega þrítug, var handtekin um helgina grunuð um að hafa myrt áttatíu og átta ára gamlan sjúkling á sjúkrahúsinu í Yokohama með því að blanda sótthreinsunarspritti í lyfin sem maðurinn fékk í æð.

Japanskir miðlar segja að ástæðan sem Kuboki hafi gefið fyrir morðunum sé sú að henni hafi kviðið svo fyrir því að hitta syrgjandi aðstandendur fólksins, að hún hafi ákveðið að eitra fyrir þeim og tímasetja þannig að fólkið myndi deyja þegar hún væri á frívakt.

Talið er að alls hafi um 48 einstaklingar dáið með dularfullum hætti á þriggja mánaða tímabili árið 2016. Þar af dóu 5 sjúklingar sama daginn. Eftir að lögreglan hóf rannsókn á andlátum sjúklinganna kom í ljós að búið hafði verið að stinga gat á fimmtung allra pokanna sem notaðir eru til að veita vökva í æð á sjúkrahúsinu.

Kuboki neitaði í fyrstu að hafa nokkuð með andlátin að gera og þar að auki hefði hún ekki tekið eftir neinu grunsamlegu á sjúkrahúsinu. Í samtali við fjölmiðla sagði hjúkrunarkonan að hún hefði samúð með aðstandendum hinna látnu.

Samstarfsmenn Kuboki eru sagðir í áfalli vegna málsins. Þá hafði aldrei grunað að hjúkrunarkonan væri svona illa innrætt. Henni var sagt upp af spítalunum í síðasta mánuði eftir að leifar af sótthreinsunarsprittinu, sem hún notaði til að drepa sjúklingana, fundust á klæðnaði hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×