Erlent

Írar vilja banna viðskipti með vörur frá landtökubyggðum Ísraelsmanna

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mótmæli til stuðnings Palestínu fyrir utan írska þingið í Dyflinni.
Mótmæli til stuðnings Palestínu fyrir utan írska þingið í Dyflinni. Vísir/Getty
Öldungadeild írska þingsins hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar öll viðskipti með vörur sem eiga uppruna sinn á hernumdum eða hersetnum landsvæðum.

Frumvarpið var lagt fram af óháðum þingmanni og nýtur stuðnings þingmanna úr öllum flokkum nema stjórnarflokknum Fine Gael. Því er fyrst og fremst beint gegn ísraelskum fyrirtækjum sem eru með starfsemi á hernumdu landi Palestínumanna á vesturbakka Jórdanár.

Landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum er ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Barry Trachtenberg, prófessor í sögu gyðinga við Forest University í Bandaríkjunum, fagnar frumvarpinu. Hann segir að landtökubyggðirnar hafi alla tíð verið reistar með þeirri vitneskju og þeim vilja að þær spilltu fyrir friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Það sé vísvitandi tilgangur ísraelskra stjórnvalda að viðhalda landtökubyggðunum í trássi við alþjóðalög til að koma í veg fyrir tveggja ríkja lausn sem fælist í stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu. Trachtenberg segir að verði lögin samþykkt á Írlandi sendi það skýr skilaboð um að alþjóðasamfélagið muni ekki lengur hunsa landtökuna.

Saeb Erakat, aðalsamningamaður Palestínumanna til margra ára, tekur í sama streng og hvetir aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi Íra.

Talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins segir hins vegar að lögin myndu hafa mjög neikvæð áhrif á friðarferlið og bitna á þeim Palestínumönnum sem hafi lífsviðurværi sitt af því að starfa í ísraelskum verksmiðjum í landtökubyggðunum.

Hann segir að ísraelsk stjórnvöld muni fylgjast náið með framvindu frumvarpsins á írska þinginu.

Eins og fyrr segir er aðeins einn írskur flokkur á móti frumvarpinu en það er stjórnarflokkurinn Fine Gael. Þingmenn flokksins segja að framkvæmd laganna yrði erfið vegna þátttöku Íra í evrópska efnahagssvæðinu. Þá gætu lögin skaðað milliríkjasambandið við Ísrael.


Tengdar fréttir

Bretaprins mættur til Ísrael

Vilhjálmur bretaprins heimsækir Ísrael, og er það með sá fyrsti úr konunglegu fjölskyldunni til þess að gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×