Viðskipti innlent

Landsréttur hafnar beiðni Valitor

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Greiðslugáttin sem Wikileaks þáði styrki í gegnum var lokað fyrirvaralaust 8. júlí 2011, degi eftir opnun hennar.
Greiðslugáttin sem Wikileaks þáði styrki í gegnum var lokað fyrirvaralaust 8. júlí 2011, degi eftir opnun hennar. VÍSIR/STEFÁN
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem beiðni Valitor um að dómkveðja nýja matsmenn í máli fyrirtækisins gegn Sunshine Press Productions (SPP) og Datacell var hafnað.

Forsaga málsins er sú að Wikileaks tók við styrkjum í gegnum greiðslugátt sem Datacell og SPP ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust. Hæstiréttur sló því föstu með dómi vorið 2013 að riftun samningsins væri ólögmæt. Frá þeim tíma hafa málaferli staðið um skaðabótakröfur vegna riftunar. Dómkvaddir matsmenn mátu tjónið á 3,2 milljarða.

Því mati hafnaði Valitor og fór fram á nýtt mat, sem var hafnað í héraðsdómi sem fyrr segir. Aðstandendur félaganna tveggja segja í tilkynningu til fjölmiðla að um mikilvægan áfangasigur sé að ræða. Með úrskurði Landsréttar hefjist „lokasókn félaganna“ í málaferlunum gegn Valitor. Þar að auki sé með dómi Landsréttar „endanlega búið að ramma inn umfang tjónsins,“ það er fjárhæð skaðabótakröfunnar í málinu.

Valitor hefur ætíð mótmælt skaðabótakröfunni, sér í lagi upphæð hennar. Sagði Valitor til að mynda að SPP hafi „aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerir samt milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu,“ í tilkynningu sem send var fjölmiðlum fyrr á þessu ári.

Aðstandendur SPP og Datacell telja ekkert því til fyrirstöðu að aðalmeðferð í málinu hefjist í haust.


Tengdar fréttir

Auka hlutafé Valitors um 750 milljónir

Hlutafé Valitors hf. verður aukið um 750 milljónir. Lögmaður Datacell og Sunshine Press Productions segir félagið hafa þurft að forða sér frá kyrrsetningu með því að hækka hlutaféð. Forstjóri Valitors segir hækkunina í takt við áætlanir.

Niðurstaða um 3 milljarða tjón stendur

Valitor fær ekki nýtt undirmat á tjóni DataCell og Sunshine Press Productions vegna ólögmætrar riftunar Valitors á greiðslugáttarsamningi fyrir Wikileaks, samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í gær. Fyrra mat á tjóni upp á 3,2 milljarða stendur því óhaggað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×