Heppnin með Svíum í sigurmarkinu en sigur Svía var sanngjarn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Forsberg fagnar.
Emil Forsberg fagnar. Vísir/Getty
Emil Forsberg tryggði Svíum 1-0 sigur á Sviss í sextán liða úrslitum HM í fótbolta í Rússlandi og um leið sæti í átta liða úrslitum þar sem liðið mætir annaðhvort Englandi eða Kólumbíu.

Svíar halda upp heiðri Norðurlanda á HM 2018 og eru komnir áfram í átta liða úrslit í fyrsta sinn síðan á HM í Bandaríkjunum 1994.

Sænska liðið sem fór alla leið fyrir 24 árum var mikið sóknarlið sem var markahæsta liðið á HM 1994 en að þessu sinni fara Svíarnir áfram á traustum varnarleik.

Emil Forsberg hafði heppnina með sér í sigurmarkinu en átti það kannski inni því áður hafði hann reynt þrettán skot á þessu heimsmeistaramóti án þess að skora.







Sænska liðið átti líka skilið að skora mark þar sem liðið fékk mun hættulegri færi en Svisslendingar í þessum leik.

Sænska landsliðið leggur grunninn að árangri sínum með frábærum varnarleik og sterkri liðsheild. Fyrir vikið er liðið komið alla leið í átta liða úrslit á HM þrátt fyrir að vera nánast stjörnulaust lið.

Í sigurmarkinu gerði Emil Forsberg mjög vel að gabba varnarmann fyrir framan teiginn og koma sér í skotið. Skotið var ekki sérstakt en skaust af varnarmanni óverjandi upp í hornið.

Skömmu síðar bjargaði Emil Forsberg síðan á marklínu í einu af fáum góðu færum Svisslendinga í leiknum. Hann var því hetja Svía í leiknum.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira